Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forsætisráðherra svarar spurningum um framvindu verkefna til stuðnings Suðurnesjum
Föstudagur 4. febrúar 2011 kl. 22:30

Forsætisráðherra svarar spurningum um framvindu verkefna til stuðnings Suðurnesjum

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur svarað fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur þingkonu um framvindu verkefna til stuðnings Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hver er staða þeirra verkefna sem eiga að nýtast Suðurnesjum sérstaklega og ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í Reykjanesbæ í nóvember sl. að ráðast í nú þegar? Hvaða verkefni eru hafin, hverjir hafa verið skipaðir í starfshópa, í hvaða störf hefur verið ráðið og hvenær er áætlað að verkefnunum verði lokið og niðurstaða liggi fyrir?


Ekkert landsvæði hefur farið varhluta af þeim gífurlegu efnahagserfiðleikum sem íslenskt samfélag hefur þurft að glíma við í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Óumdeilt er þó að áfallið hefur orðið einna mest á Suðurnesjum sem birtist m.a. í meira atvinnuleysi en mælist annars staðar á landinu. Til að bregðast við þessu hefur ríkisstjórnin haft til skoðunar til hvaða ráðstafana unnt sé að grípa til að efla atvinnu og byggð á Suðurnesjum.


Leitað hefur verið eftir hugmyndum að aðgerðum frá öllum ráðuneytum ásamt því sem farið hefur verið yfir þær hugmyndir sem komu út úr vinnu við Sóknaráætlun 20/20 fyrir Suðurnes. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda af stað ýmsum verkefnum til að vinna gegn fyrrgreindri þróun. Til þess að halda utan um þau verkefni og vinna í sameiningu að atvinnu-, mennta- og velferðarmálum í landshlutanum hefur verið myndaður samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu.


Fjöldi hugmynda að verkefnum var skoðaður í því samráðsferli sem verið hefur í gangi og var niðurstaðan að ellefu verkefni hafa nú þegar verið sett í ferli. Mörg verkefnanna eru ýmist frágengin eða á lokastigi af hálfu stjórnvalda.


Verkefnin sem eru hafin eru eftirfarandi:


1.
Flutningur Landhelgisgæslunnar á Suðurnes. Hagkvæmniathugun á þeim kosti að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði er í vinnslu og er ætlunin að ljúka vinnu við hana í febrúar. Innanríkisráðuneyti fer með umsjón þessa verkefnis.

2.
Gagnaver á Suðurnesjum – bætt samkeppnisskilyrði. Lög nr. 163/2010, um breytingu á virðisaukaskattslögum, voru sett í desember og taka gildi 1. maí nk. Þeim er ætlað að gera samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi sambærilega við það sem gerist í löndum innan Evrópusambandsins. Verkefninu er lokið af hálfu stjórnvalda.

3.
Hersetusafn á Suðurnesjum. Undirbúningur verkefnisins er hafinn með því að kannað er hverjir þurfi að koma að verkefninu og er ætlunin að þeir aðilar tilnefni fulltrúa í undirbúningshóp. Einnig þarf að meta hversu mikið fjármagn þarf til verkefnisins og hvaðan það verði fengið. Fjármálaráðuneyti fer með umsjón verkefnisins.

4.
Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á gamla varnarsvæðinu. Gerður hefur verið samstarfssamningur á milli Íslandsstofu og Þróunarfélags Keflavíkur um sérstaka kynningu á fasteignum og aðstöðu á Ásbrú og er þeirri kynningu fyrst og fremst beint að kvikmyndaiðnaðinum og möguleikum á því sviði.

5.
Sérfræðingahópur iðnaðarráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum skilaði framvinduskýrslu 15. desember 2010. Skýrslan og niðurstöður hennar hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir samráðsvettvangi forsætisráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum. Í iðnaðarráðuneytinu er unnið að frekari útfærslu tveggja tillagna sem fram koma í framvinduskýrslunni. Önnur er um stofnun atvinnuþróunarfélags á Suðurnesjum og hin um kostnaðargreiningu á hagkvæmni stórs ylvers og gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta. Starfshópurinn lýkur störfum 1. apríl með lokaskýrslu.

6.
Langtímaverkefni um klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku. Hafinn er undirbúningur með fyrirtækjum á Suðurnesjum að mótun og rekstri klasasamstarfs á sviði líforku og er markmiðið að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja á þessu sviði. Beitt er aðferðafræði klasasamstarfs til að vinna að samstarfsverkefnum á sviði nýsköpunar, vöruþróunar, markaðssóknar og útflutnings. Mótun sameiginlegrar stefnu og skilgreining hlutverks hagsmunaaðila, auk aðgerðaáætlunar um heildarstefnu, eru næstu skref. Iðnaðarráðuneyti fer með umsjón verkefnisins. Verkefninu hefur miðað vel áfram og er m.a. verið að skoða stofnun frumkvöðlaseturs á sviði líforku á Reykjanesi. Verkefninu hefur ekki verið settur tímarammi en það getur þróast áfram í nokkur ár með mörgum skilgreindum áföngum.

7.
Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta í fjögur ár. Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 153/2010, voru samþykktar á Alþingi í desember sl. Lögin lengja hámarkstíma atvinnuleysisbóta úr þremur í fjögur ár.

8.
Velferðarmál – formlegt samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri til að halda utan um formlegt samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum, þ.e. Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga, hvað varðar velferðarmál. Hann hefur samráð við verkefnisstjórn sem er skipuð fulltrúum sveitarfélaganna, Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og umboðsmanns skuldara. Til ráðgjafar og aðstoðar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og velferðarráðuneytis er Velferðarvaktin. Verkefninu er ætlað að geta verið fyrirmynd sams konar verkefna á öðrum landsvæðum.

9.
Umboðsmaður skuldara á Suðurnesjum – útibú. Tveir lögfræðingar hafa verið ráðnir til starfa hjá útibúi umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum og hafa þeir aðstöðu á skrifstofu sýslumannsins í Keflavík. Verið er að undirbúa úttekt á nauðungarsölum á Suðurnesjum, umfangi og ástæðum og tengslum við stöðu velferðarmála. Reiknað er með að um eitt ár taki að ljúka þeirri úttekt. Velferðarráðuneyti fer með umsjón málsins.

10.
Fiskitækniskóli Íslands, þróunar- og uppbyggingarverkefni í menntamálum. Ráðið verður í nýja stöðu hjá Fiskitækniskóla Íslands til að taka þátt í greiningu á menntunarþörf á svæðinu og samráðsvettvangi í menntamálum á Suðurnesjum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með umsjón málsins.

11.
Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði á Suðurnesjum. Fjármagni verður varið til tveggja ára þróunar- og uppbyggingarverkefnis í menntamálum til að efla mannauð til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Tveir verkefnisstjórar verða ráðnir til að vinna með menntastofnunum á svæðinu og leitað hefur verið eftir tilnefningum í stýrihóp sem verður samráðsvettvangur um þessi málefni. Verkefnahópur mun starfa með aðild menntastofnana á svæðinu. Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með umsjón málsins.


Almennur samráðsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila á Suðurnesjum.
Haldnir hafa verið tveir samráðsfundir með fulltrúum fimm sveitarfélaga á Suðurnesjum, samtökum þeirra, fulltrúa skóla, verkalýðsfélaga og lykilaðila á svæðinu auk fulltrúa þeirra fimm ráðuneyta sem ábyrg eru fyrir verkefnunum sem talin eru hér að framan, alls um 30 manns. Forsætisráðuneytið hefur haldið utan um vettvanginn en vonir standa til að samtök sveitarfélaga á svæðinu (SSS) taki í auknum mæli við því utanumhaldi.