Fólksfjölgun á landinu mest á Suðurnesjum
- Fólki fjölgaði um 31% á Suðurnesjum á tímabilinu 2000-2013.
Fólksfjölgun á landinu var mest á Suðurnesjum tímabilið 2000 til 2013 eða 31 prósent. Næst mest var fólksfjölgunin á höfuðborgarsvæðinu, 19 prósent. Tímabilið 2009 til 2013 fækkaði fólki á Suðurnesjum örlítið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta sem út kom á dögunum.
Í skýrslunni kemur einnig fram að á Suðurnesjum hafi framleiðsla dregist saman um 12 prósent á tímabilinu 2009 til 2013. Er samdrátturinn á tímabilinu með því mesta sem gerðist á landinu en aðeins á Vestfjörðum varð álíka samdráttur eða 11 prósent. Á landsbyggðinni í heild var hagvöxtur 0 prósent og á höfuðborgarsvæðinu var hann jákvæður um 5 prósent. Árið 2013 var hlutur Suðurnesja í landsframleiðslu um 5 prósent. Fasteignaverð á Suðurnesjum lækkaði um 27 prósent að raungildi frá 2009 til 2013, meira en í nokkrum öðrum landshluta.
Summa launa á Suðurnesjum fylgdi nokkurn veginn fylgt launum á landinu. Samdráttur virðist einkum vera í fjármálafyrirtækjum, fasteignafélögum og þess háttar starfsemi. Mikil uppbygging var í Reykjanesbæ á árunum fram að hruni. Mikið af íbúðarhúsnæði losnaði þegar bandaríska herliðið fór frá Keflavíkurflugvelli árið 2006, en að auki var mikið byggt í Reykjanesbæ árin á eftir. Íbúðalánasjóður lánaði stórfé til fasteignafélaga á svæðinu. Auk þess voru mikil umsvif í Sparisjóðnum í Keflavík. Töluverðu var kostað til úr ríkissjóði til þess að endurreisa sjóðinn eftir að bankarnir hrundu, en það dugði ekki til. Fasteignafélögin fóru mörg á höfuðið, en til skamms tíma hafa fjölmörg hús staðið auð á Suðurnesjum. Á móti kemur uppbygging í verslun og samgöngum, sem í skýrslunni segir að væntanlega tengist flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og ferðaþjónustu í kringum hana. Verslun, hótel, veitingastarfsemi og samgöngur eru fjórðungur af framleiðslu á Suðurnesjum og er það mun hærra hlutfall en annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Þarna munar mest um Keflavíkurflugvöll og aðra ferðaþjónustu, ekki síst Bláa lónið.
Hlutur sjávarútvegs á Suðurnesjum er minni en víða annars staðar utan höfuðborgarinnar. Lengi vel virtust umsvif á flugvellinum þrengja að sjávarútvegi í þessum landshluta. Fiskveiðar drógust mikið saman á Suðurnesjum mest allt tímabilið 2009 til 2013, en fiskvinnsla hefur hins vegar eflst. Þar ræður einkum nábýli við útflutningsstaði, Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurhöfn. Skipting launa á atvinnugreinar gefur hugmynd um það hvar fólk vinnur. Árið 2013 var rúmur fjórðungur launa á Suðurnesjum í sjávarútvegi og hafði hlutfallið hækkað heldur frá 2009. Hlutur verslunar, samgangna og hótela og þess háttar starfsemi í launum óx úr tæpum fjórðungi í tæp 30 prósent á tímabilinu, en hlutur fjármálafyrirtækja, fasteignafélaga og skyldra greina var um 11 prósent. Hlutur hins opinbera breytist lítið, en rúmur fimmtungur launasummunnar er þar.