„Fólk virðist vera að neita vinnu,“ segir Einar Magnússon hjá Atvinnu- og hafnarsviði
Atvinnu - og hafnasvið Reykjanesbæjar fundaði í gær um atvinnuástandið í Reykjanesbæ. Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunnar sat fundinn ásamt Margréti Lindu Ásgrímsdóttur, skrifstofustjóra hjá Vinnumálastofnun Suðurnesja. Atvinnu- og hafnasvið fer með málefni Reykjaneshafnar og atvinnumál, þ.e. atvinnuþróun og athugun nýrra atvinnutækifæra s.s. á sviði verslunar og þjónustu, ferðamála, iðnaðar, orkumála, sjávarútvegs og heilbrigðisþjónustu. Einar Þórarinn Magnússon hjá Atvinnu- og hafnasviði skýrði frá efni fundarins í stuttu spjalli við Víkurfréttir.
Rætt var á fundinum hvaða stéttir það væru sem eru atvinnulausar hérna í Reykjanesbæ og þá kemur í ljós að rúmlega 60-70% þeirra sem eru atvinnulausir eru einungis með grunnskólapróf. Sömuleiðis hefur töluvert fækkað af fólki á atvinnuleysisskrá. Það skýrist helst af því að mikið af fólki er að flytjast burt og þá í mestum mæli erlendis. „Okkur skilst að það búi á milli 4.500-6.000 manns erlendis sem eru með lögheimili á Íslandi, það er frekar stór tala, “ segir Einar Þórarinn. „Ef við hefðum allt þetta fólk hérna þá væri atvinnuleysi töluvert meira,“ bætir hann við.
„Við ræddum líka það að fólk virðist vera að neita vinnu. Atvinnurekendur eru ekki að standa sig þar en þeir verða að tilkynna það háttarlag sem virðist tíðkast að fólk neiti hreinlega að taka þá vinnu sem er í boði. Þannig er að ef þú neitar vinnu á meðan þú ert atvinnulaus þá missirðu bæturnar þínar í 40 virka daga og atvinnurekendur verða að starfa með okkur í því að hvetja fólk á vinnumarkaðinn.“
Svo virðist það vera raunin að ef Íslendingar kæri sig ekki um vinnuna þá sé atvinnurekendum frjálst að fara erlendis og sækja sér vinnuafl innan evrópska efnahagsvæðisins. Ef að þeir eru í vandræðum með að fá Íslendinga í vinnu eða hafa af þeim einhverja slæma reynslu þá sækja þeir vinnuaflið annað.
„Svo höfum við áhyggjur af því hve mikið af fólki er inn á sveitarfélaginu. Það hefur verið umræða um það hvernig skuli reyna að koma í veg fyrir það. Það er komið töluvert af fólki sem er komið inn á sveitarfélögin sem er afar slæm þróun.“
Þetta var að sögn fundarmanna mjög góður fundur og skýrði vel vinnulag Vinnumálastofnunar. „Atvinnu- og hafnarsvið er samrýndur hópur sem er að reyna hvað hann getur til að vinna bug á atvinnuleysinu og framundan eru verkefni sem munu hjálpa okkur að koma okkur á lappir. Atvinnuleysið hérna á svæðinu mundi fljótlega minnka verulega ef þessi verkefni eins og kísilverið, gagnaverið, fiskeldin á Reykjanesi, hjúkrunarheimilið á Nesvöllum og fleiri verkefni komast á skrið innan skamms. Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af ástandinu en vonumst til þess að þessi verkefni fari nú að detta inn, það gæti gerst mjög fljótlega og þá líklega flest um sama leyti. Við erum að reyna að vinna í þessum málum,“ sagði Einar að lokum.