Festa: Hefur fært eign sína í SpKef niður um 1,6 milljarða
Sparisjóðurinn í Keflavík er orðinn ríkiseign. Yfir hundrað ára sögu sjóðsins í almannaeigu lauk í síðustu viku þegar hann var yfirtekinn af ríkinu. Rekstur bankans hafði verið afar erfiður frá bankahruninu. Endurskipulagning á rekstrinum fór út um þúfur þar sem samkomulag náðist ekki við lánadrottna bankans um 80% niðurfellingu krafna.
Ýmsir tapa á falli SpKef, ekki eingöngu almennir stofnfjáreigendur. Lífeyrissjóðurinn Festa gæti tapað hátt í 1,7 milljarði vegna þessa, staðfestir Kristján Gunnarsson, núverandi stjórnarformaður Festu.
„Bókfærð eign Festu í Sparisjóðnum í Keflavík um síðustu áramót er 241 milljón í skuldabréfum en stofnfjárbréf höfðu verið afskrifuð að fullu. Ef ekki fæst neitt upp í þessar eignir þá má búast við að þær tapist á þessu ári. Festa hefur fært niður eign sína í SpKef umtalsvert eða um 888.6 milljónir í skuldabréfum og 712 milljónir í stofnfé. Festa hefur líka fært niður eign sína í fleiri Sparisjóðum s.s. Spron, Sp.Mýr og Byr en þar er einungis um skuldabréf að ræða,“ svaraði Kristján Gunnarsson þegar hann var inntur eftir því hversu stórt tap Festu væri vegna falls SpKef.
Hverjar verða afleiðingar þessa taps? Munu lífeyrisréttindi verða skert enn frekar til viðbótar við þau 5% sem ákveðin voru á síðasta ársfundi Festu?
„Ef kæmi til frekari afskrifta myndi það hafa óveruleg áhrif á afkomu sjóðsins árið 2010. Ávöxtun það sem er af þessu ári er góð og ef hún verður svipað út árið erum við í góðum málum og munum vonandi ekki þurfa að skerða réttindi“.
RÚV hefur eftir Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, að stjórnendur lífeyrissjóðsins, eigi að segja af sér. Hver eru þín viðbrögð við því? Kemur það til greina, ekki síst í ljósi þess að þú varst einnig stjórnarformaður Spkef á sama tíma?
„Í tilvitnuðu viðtali við Vilhjálm Birgisson talar hann um lífeyrissjóðina í fleirtölu. Þar var einkum verið að fjalla um Gildi og LSR. Ég vil í þessu sambandi taka það fram að fjárfestingar okkar í Stofnfjárbréfum Spkef voru gerðar fyrir áratugum, enginn af núverandi stjórnarmönnum var í stjórn þá. Sjóðurinn tók þátt í stofnfjáraukningu árin 2006 - 2007, en ef það hefði ekki verið gert hefði hlutur hans verið þynntur út. Hins vegar tók hluti af núverandi stjórn ákvörðun um að selja þriðjung af eigninni og innleysti við það 400 milljón krónur í hagnað fyrir 2 árum. Skuldabréf sjóðsins í SpKef eru aðallega keypt á árunum 2001 – 2003. Síðan þá hafa bara verið sett innlán á innlánsreikninga sem við fallið eru tryggðir samkvæmt yfirlýsingu ríksstjórnar.
Á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var 20. apríl síðastliðinn var tilnefnt í nýja stjórn. Tilnefning mín var samþykkt án mótatkvæða. Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat þennan fund og gerði ekki athugasemdir. Þess ber að geta í þessu sambandi að hér var um algjört kerfishrun að ræða við fall bankanna haustið 2008 en í kjölfar þess hafa mörg fyrirtæki farið í þrot. Þannig eru 65% stærstu fyrirtækja landsins árið 2007 gjaldþrota í dag. Þetta hefur haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir lífeyrissjóðakerfið í heild sinni og hafa sjóðir þurft að skerða réttindi í framhaldinu. Réttindaskerðingar Festu lífeyrissjóðs hafa heldur verið í vægari kantinum í þeim samanburði,“ sagði Kristján.