Færri mál látin niður falla
Góður árangur við upprætingu heimilisofbeldis
Árangur við úrvinnslu heimilisofbeldis hefur tekið stakkaskiptum eftir að lögreglan á Suðurnesjum hóf samstarf við félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Hlutfall mála þar sem rannsókn var hætt fækkaði úr 94 prósentum árið 2010 í 3 prósent árið 2015. Það sem meðal annars þótti til bóta var að geta leitað til annarra einstaklinga en lögreglu, þó markmið allra sé það sama, að uppræta heimilisofbeldi. Þar skiptir ekki síður máli óeinkennisklætt starfsfólk. Félagsþjónustur sveitarfélaganna komu að 42 málum af 62 árið 2015.
Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum hefur góður árangur náðst í úrvinnslu heimilisofbeldis á Suðurnesjum á undanförnum árum. Vísbendingar þar af lútandi eru til dæmis upplýsingar frá Kvennaafhvarfinu um að þangað hafi færri konur og börn frá Suðurnesjum leitað eftir að breytt verklag var tekið upp. Þá hafi fleiri karlar af Suðurnesjum leitað aðstoðar hjá Körlum til ábyrgðar (sem nú nefnist Heimilisfriður) en áður.
Málum þar sem rannsókn er hætt snarfækkar
Mál fá nú meiri framgang innan réttarvörslukerfisins nú en áður og féllu 28 dómar í heimilisofbeldismálum á Suðurnesjum á árunum 2011 til 2014. „Árið 2010 var rannsókn hætt í 17 af þeim 18 málum sem komu til rannsóknar hjá lögreglu, strax hjá rannsóknardeild. Þetta eru 94 prósent málanna. Árið 2015 var þetta hlutfall komið í 2 mál eða 3 prósent af þeim 62 málum sem komu upp það ár,“ segja þeir Skúli Jónsson og Jóhannes Jensson hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.
Nokkrar sveiflur hafa verið í málafjölda undanfarin ár og má nefna ýmsar hugsanlegar ástæður fyrir því, svo sem betri skráningu hjá lögreglu og aukna tiltrú almennings á verklaginu. Um 8 prósent þeirra heimilisofbeldismála sem koma til kasta lögreglu á landinu eiga sér stað á Suðurnesjum en íbúafjöldinn er um 7 prósent af heildaríbúafjöldanum. Að sögn Skúla og Jóhannesar er umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum með hæsta hlutfall þessara mála utan höfuðborgarsvæðisins.
„Verklagið hjá okkur gengur út á „að halda glugganum opnum“ eins lengi og þörf krefur. Það þýðir að lögregla, barnaverndar- og félagsmálayfirvöld komi að málum, afli eins mikilla upplýsinga og unnt er, bjóði stuðning og kynni bæði brotaþolum og gerendum þau úrræði sem eru í boði, strax í upphafi máls. Þá er málum fylgt eftir, annars vegar með sambandi félagsþjónustu við brotaþola innan þriggja daga frá atburði og síðan með heimsókn lögreglu og félagsþjónustu að jafnaði innan viku frá atburði. Þessi aðferðafræði hefur almennt mælst vel fyrir hjá brotaþolum sem telja sig fá meiri stuðning og ráðgjöf en áður,“ segja Skúli og Jóhannes.
Skýr skilaboð um að heimilisofbeldi sé ekki liðið
María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar í Reykjanesbæ, segir að markmiðið með verkefninu sé að gefa út skýr skilaboð til íbúa um að ofbeldi á heimilum verði ekki liðið. „Það er gert með því að lögreglan á Suðurnesjum leggur sérstaka áherslu á rannsókn heimilisofbeldismála og félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum setja það í forgrunn að bæta þjónustu við þolendur og gerendur í heimilisofbeldismálum.“ Um leið og lögreglan fær tilkynningu um heimilisofbeldi kemur starfsfólk félagsþjónustu viðkomandi svæðis að málinu.
Vorið 2015 hélt sænski félagsráðgjafinn Inger Ekbom námskeið í Reykjanesbæ fyrir fagfólk sem vinnur með börnum sem búa við eða hafa búið við heimilisofbeldi. Ekbom er höfundur meðferðarúrræðisins Trappan, sem gengur út á þrepaskiptingu við meðferð þolanda allt frá fjögurra ára aldri. „Í fyrsta þrepi er lögð áhersla á tengslamyndun við barnið svo það finni sig öruggt í að greina frá erfiðri lífsreynslu. Í öðru þrepi er lögð áhersla á uppbyggingu þar sem barnið vinnur úr lífsreynslu sinni og í því þriðja er unnið með þekkinguna á margvíslegan hátt og framtíðin rædd,“ segir María.
Á vef Reykjanesbæjar er tengill á bækling um heimilisofbeldi á íslensku, ensku og pólsku sem gefinn var út af félagsþjónustum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Velferðarvaktinni og Velferðarráðuneytinu í kjölfar samstarfsins. Slóðin er http://www.reykjanesbaer.is/thjonusta/velferdarmal/heimilisofbeldi/ Nú er unnið að endurútgáfu á bæklingnum á vegum velferðarráðuneytisins.