Enn óvissa með stálpípuverksmiðjuna
Bandaríska fyrirtækið International Pipe and Tube hefur fengið frest til 24. febrúar til lokaundirbúnings vegna stálpípuverksmiðju í Helguvík. Fimm mánaða frestur fyrirtækisins sem gefinn var 24. júní rann út 24. nóvember sl. Barry Bernstein forstjóri fyrirtækisins segir í viðtali við Víkurfréttir í dag að reiknað sé með að undirbúningi vegna verkefnisins verði lokið á fyrsta fjórðungi næsta árs. Segist hann vonast til að framkvæmdir við verksmiðjuna hefjist í apríl.
Í september sótti fyrirtækið um aðra lóð í Helguvík; lóð sem er ofar og átti hún að vera undir smærri verksmiðju. Fyrirtækið hefur þegar fest kaup á tækjum og búnaði frá Kanada sem átti að reisa á minni lóðinni í Helguvík. Gerði atvinnu- og hafnarráð samning við IPT um að ef framkvæmdir á lóðinni væru ekki hafnar fyrir 20. nóvember þá myndi samningurinn ganga úr gildi. Í verksmiðjunni átti að framleiða mun stærri stálrör en framleiða á í verksmiðjunni við höfnina. Að sögn Barry Bernstein mun það ráðast á næstu tveimur vikum hvort farið verði út í framkvæmdir á smærri lóðinni. Segir Barry að kostnaðaráætlun vegna uppsetningu verksmiðjunnar hafi reynst meiri en upphaflega var gert ráð fyrir.
Skrifað undir fyrir tveimur og hálfu ári
Tvö og hálft ár er síðan skrifað var undir samninga um Stálpípuverksmiðju í Helguvík og var Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra meðal viðstaddra. Samkvæmt áætlunum sem uppi á borðinu voru á þessum tíma var gert ráð fyrir verksmiðja IPT yrði gangsett í byrjun árs 2005. Miðað við nýjustu áætlanir fyrirtækisins er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að verksmiðjan taki til starfa eftir tvö ár.
Forstjórinn segir undirbúningstímann langan
Frá því skrifað var undir samningana á veitingahúsinu Ránni fyrir tveimur og hálfu ári hafa verið gerðar miklar væntingar til stálpípuverksmiðjunnar. Fyrir Suðurnesin skiptir tilkoma slíkrar verksmiðju miklu máli enda er gert ráð fyrir að þar starfi á milli 200 og 240 manns. Í áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði um 18 þúsund fermetrar að stærð og að þar verði árlega framleidd um 175 þúsund tonn af stálpípum. Heildarkostnaður verkefnisins er um 85 milljónir dala eða um 5,5 milljarðar íslenskra króna.
Ljóst er að margir hafa misst trúna á verkefninu. Barry Bernstein forstjóri IPT segir hinsvegar að þegar fyrirtækið reisti stálpípuverksmiðju í Eistlandi fyrir nokkrum árum hafi það verkefni tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Í stað tveggja ára undirbúningstíma tók undirbúningur þess verkefnis fjögur ár.
Þreytu farið að gæta
Heimildir Víkurfrétta herma að innan Reykjanesbæjar sé farið gæta ákveðinnar þreytu gagnvart verkefninu og að menn séu farnir að slá ákveðna varnagla. Áfram er unnið að markaðssetningu Helguvíkursvæðisins og standa yfir viðræður við nokkra aðila sem áhuga hafa á að koma þar upp iðnaði. Helguvíkursvæðið er mjög stórt og eru bundnar miklar vonir við það, enda eitt besta iðnaðarsvæði á landinu þegar tekið er tillit til hafnaraðstöðu og nálægðar við alþjóðaflugvöll. Á næstu mánuðum mun það skýrast hvort International Pipe and Tube mun takast að reisa í Helguvík stálpípuverksmiðju. Barry Bernstein forstjóri fyrirtækisins er bjartsýnn á að svo verði.
Myndin: Lóð IPT í Helguvík var tilbúinn í sumar. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson - [email protected]