Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekkert Dubai í Höfnum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 20. júlí 2019 kl. 08:00

Ekkert Dubai í Höfnum

Margrét Lilja Margeirsdóttir skrifaði meistararitgerð um Hafnir

Keflvíkingurinn Margrét Lilja Margeirsdóttir varði á dögunum meistararitgerð sína í skipulagsfræði við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Margrét valdi sér viðfangsefni úr Reykjanesbæ en ritgerðin nefnist „Hafnir á Suðurnesjum. Grunnur að skipulagstillögu.“ Í ágripi sem Margrét Lilja ritar sem inngangsorð ritgerðarinnar lýsir hún Höfnum, þessum þéttbýliskjarna á suðvesturhorni Íslands, sem fyrir aldarfjórðungi sameinaðist Keflavík og Njarðvík.

„Lítil uppbygging hefur átt sér stað í Höfnum, íbúðarhús var síðast byggt þar árið 2012. Grunnþjónusta á borð við skóla, verslanir og afþreyingu er ekki til staðar og þurfa íbúar að sækja alla sína þjónustu í Keflavík, Ytri-Njarðvík eða Innri-Njarðvík.



Mynd að ofan: Margrét Lilja Margeirsdóttir með ritgerðina sína um Hafnir.

Markmið verkefnis er að setja fram grunn að skipulagi í Höfnum á Suðurnesjum. Markmiðið er að leysa skipulagið í anda sjálfbærrar þróunar. Áherslur verkefnis eru þríþættar þ.e. náttúrufarslegar-, manngerðar- og hagrænar forsendur. Þessir þættir eru mikilvægir og nauðsynlegt er að skoða þá og samþætta svo að úr verði gott skipulag. Skipulag svæðisins kallar á samþættingu ólíkra þátta og eru Heimsmarkið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð að leiðarljósi við verkefnið.

Forsendur fyrir skipulagi voru niðurstöður greininga á Höfnum á Suðurnesjum, sem var mikilvægur þáttur í undirbúningsvinnu fyrir skipulagstillöguna. Grunnur að skipulagstillögu var lögð fram með áherslu á þéttingu byggðar og aukna þjónustu í samræmi við náttúru og umhverfi,“ segir Margrét í inngangságripi að ritgerð sinni.


Mynd að ofan: Grunnur að skipulagstillögu sem Margrét vann í verkefni sínu um Hafnir.


„Ég er uppalin í Reykjanesbæ og er með miklar rætur hingað og þess vegna vildi ég fjalla um eitthvað sem tengist Reykjanesbæ. Ég hef áður unnið BS-verkefni um grunnskólalóðir í Reykjanesbæ. Mér finnst mikilvægt að maður reyni að nýta sína krafta í sitt heimasamfélag,“ segir Margrét í samtali við Víkurfréttir. Hún segist hafa mikinn áhuga á skipulagsfræðum og það hafi ráðið miklu þegar hún ákvað að takast á við þetta nám við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hafnir falin perla

„Mér finnst Hafnir vera falin perla. Þó svo ég sé alin hérna upp, þá fór ég ekki mikið í Hafnir en í gegnum námið, þegar ég sá hvað hægt er að gera mikið fyrir svona lítil þorp, þá fannst mér þetta kjörið. Eftir að ég lauk við verkefnið þá langar mig bara að eiga heima þarna,“ segir Margrét og brosir og augljóst að hún er orðin skotin í litla 100 manna þorpinu við Kirkjuvog. Hún segir sorglegt hversu lítil uppbygging hafi átt sér stað í Höfnum eftir sameiningu sveitarfélaganna 1994. Íbúafjöldinn stendur nokkurn veginn í stað í Höfnum. Þar hafa á síðustu áratugum búið frá 80 og upp í 120 manns. Um þessar mundir eru íbúar í Höfnum nálægt 110.



„Það er engin stefna eða þjónusta. Strætó gengur þangað tvisvar á dag og ef íbúar ætla á öðrum tímum þurfa þeir að hringja og panta bíl“. Margrét segist hafa komist að því í sínum rannsóknum að íbúar í Höfnum búi við skerðingar sem aðrir íbúar Reykjanesbæjar búi ekki við og myndu ekki sætta sig við. Í ritgerðinni gerði Margrét samantekt á gögnum um Hafnir og vann eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Hún vann með stöðu Hafna í dag, núverandi stöðu Reykjanesbæjar í skipulagsmálum og hver væri möguleg framtíðarsýn Hafna miðað við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Hún gerði greiningar á náttúrufarslegum forsendum, skoðaði veðurfar og vistgerðir, jarðfræði og náttúruvá, sem Margrét segir vera til staðar í Höfnum. Of langt mál er að telja upp alla þá þætti sem Margrét skoðaði en afrakstur vinnunnar er grunnur að skipulagstillögu fyrir Hafnir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skjalið sem hún vann er hugmynd um hvernig byggja má upp í Höfnum til framtíðar. Margrét áfangaskipti verkefninu en í hugmyndum hennar að fyrsta áfanga er þétting byggðar á miðsvæði og bygging skóla sem væri rekinn sem leik- og grunnskóli. Í grunnskólanum yrðu börn í 1. til 4. bekk. Annar áfangi gerir einnig ráð fyrir þéttingu byggðar og fólksfjölgun. Þar er gert ráð fyrir uppbyggingu lýðháskóla í þorpinu. „Lýðháskólinn á Flateyri hefur reynst vel til að fjölga íbúum og auka fjölbreytni“.

Rúmlega 500 manna þorp

Grunnurinn að skipulagstillögu fyrir Hafnir er að gera ráð fyrir að íbúar verði rúmlega 500 talsins. Það má segja að í Reykjanesbæ hafi hugmynd Margrétar þegar verið framkvæmd í Innri Njarðvík. „Hún var áður kölluð Týnda-Njarðvík en um leið og þar var byggður skóli var kominn forsenda fyrir því að fólk myndi flytja þangað. Það er einmitt takmarkandi þáttur fyrir Hafnir í dag að það er enginn ávinningur að flytja þangað. Af hverju að flytja þangað ef það er ekkert þangað að sækja,“ spyr Margrét.

Í vinnu sinni byggir Margrét upp skipulag í kringum fjölskyldur og leggur áherslu á að það verði skóli í Höfnum. Tillagan gerir ráð fyrir einbýlishúsum og parhúsum. Þá er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum í kringum lýðháskólann en hann sér Margrét þar sem nú er samkomuhús íbúa í Höfnum. Engar byggingar eru hærri en tvær hæðir, auk kjallara. „Við erum ekki að fara að byggja upp Dubai í Höfnum,“ segir Margrét og hlær. Hún vill halda í sjarmann sem er þegar yfir byggðinni en í Höfnum er hverfisvernd sem kemur í veg fyrir að innanum núverandi byggingar rísi aðrar sem stinga í stúf.

„Þessar hugmyndir þurfa að falla vel að núverandi byggð. Nú þarf að fara í áframhaldandi vinnu en í dag er ekkert deiliskipulag í Höfnum og næsta skref er Reykjanesbæjar að vinna deiliskipulag fyrir Hafnir,“ segir Margrét. Hún segir Hafnir hafa margt til brunns að bera sem íbúastaður. Þarna er kraftur í náttúrunni sem erfitt er að upplifa annarsstaðar. „Ég hef áhuga á að hitta íbúa í Höfnum og sjá hvað þeim finnst. Ég vil virkja íbúalýðræðið í Höfnum þegar kemur að frekari skipulagsvinnu á svæðinu. Þegar við ýtum við grasrótinni þá fáum við gott samfélag.“

Hún segist að endingu vonast til að geta unnið áfram með hugmyndirnar. Hún hafi fengið góða aðstoð frá starfsmönnum bæjarins þegar hún vann að meistararitgerðinni. „Þau eru viskubrunnar og hafa mikla þekkingu á samfélaginu og Reykjanesbær sýndi þessu verkefni mínu mikinn áhuga, sem er ánægjulegt,“ segir Margrét Lilja Margeirsdóttir í samtali við Víkurfréttir.



Loftmyndir af Höfnum voru teknar með flygildi í júlí 2019. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson