Efla námsúrræði fyrir íbúa og atvinnuleitendur
Ríkisstjórnin styður við menntun og ný námsúrræði með stofnun Menntanets Suðurnesja sem Bjarklind Sigurðardóttir stýrir. Samstarf við menntastofnanir á svæðinu.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í september 2020 að stofna Menntanet Suðurnesja í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu til að efla námsúrræði fyrir íbúa og atvinnuleitendur. Markmiðið er að auka samvinnu menntastofnana, búa til menntaúrræði þvert á menntastofnanir með áherslu á þarfir íbúa og hámarka nýtingu fjármuna, reynslu og þekkingar sem fyrir er á svæðinu. Aðilar að Menntaneti Suðurnesja eru Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Keilir; miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Fisktækniskóli Íslands. Verkefnastjóri Menntanets Suðurnesja, Bjarklind Sigurðardóttir, hóf störf í mars á þessu ári, hún er einnig stjórnarformaður Menntanetsins.
„Við í stjórn Menntanets Suðurnesja hófum strax samtal um þau helstu verkefni sem við vildum ráðast í og sáum fyrir okkur að það væri gott að styrkja og styðja við tvo viðkvæma hópa á Suðurnesjum. Annars vegar að fjármagna og halda námskeið fyrir atvinnuleitendur og hins vegar fjármagna og setja upp nám fyrir unga útlendinga sem eiga erfitt með að sækja hefðbundið nám. Stjórnendur og starfsmenn skóla hófu þessa vegferð með því að hittast á vinnufundi í byrjun október til að greina þörfina hjá hópunum tveimur og hugsanleg tækifæri til að aðstoða þá. Leitast var við að finna svör við ýmsum spurningum til að skrásetja þekkingu á málefnunum sem svo nýttist við áframhaldandi undirbúning. Breiðari hópur fagaðila frá skólum, sveitafélögum og öðrum stofnunum funduðu og upplýstu teymi um stöðu mála í þessum málaflokkum. Þannig náðum við að setja saman öflugt teymi sem hefur góða þekkingu og reynslu. Næstu skref stjórnar voru að ráða fagaðila sem verkefnastjóra til að stýra þessum tveimur verkefnum innan skólanna,“ segir Bjarklind.
Námskeiðið Eflum atvinnuleitendur
Í byrjun nóvember var verkefnastjóri ráðinn til að stýra og undirbúa námskeiðið sem er fyrir atvinnuleitendur. Verkefnastjórinn er Jóhann Birnir Guðmundsson, félagsfræðingur. Hann er staðsettur hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. „Námskeiðið heitir Eflum atvinnuleitendur og byggir á þeirri hugmyndafræði að einstaklingur sem hefur trú á sjálfum sér sé virkari í atvinnuleit og/eða sæki sér menntun til að efla sig, hann er tilbúinn til að takast á við nýjar áskoranir í lífinu.
Á námskeiðinu verður einstaklingsmiðuð fræðsla tengd námi, starfsmöguleikum og heilsu. Nemendur fá ráðgjöf sem styrkir einstaklinginn til að ná settum markmiðum er tengist námi og atvinnu. Boðið verður upp á sex mánaða dagskrá þar sem farið verður m.a. í sjálfsstyrkingu, heilsutengda fræðslu, fjármálafræðslu og starfstengda fræðslu með möguleika á vinnuprófun, réttindi og skyldur. Einnig verður í boði uppbyggileg samskipti, núvitund og jóga. Skólarnir bjóða nemendum upp á örnámskeið sem tengist brautum skólanna til að kynna fyrir þeim þá menntun sem býðst á svæðinu og nemendur fara einnig í vinnustaðaheimsóknir.
Námskeiðið verður fyrir tvo hópa, annars vegar fyrir íslenskumælandi og hins vegar pólskumælandi. Gert er ráð fyrir tólf nemendum í hvorum hópi. Námskeiðið fyrir íslenskumælandi hópinn byrjaði í lok nóvember. Það er ennþá laus pláss í hópana en er óðum að fyllast í hvorn hópinn fyrir sig. Ég vil endilega koma því á framfæri fyrir þá sem hafa áhuga að hafa samband við Jóhann Birni hjá MSS.“
Nám fyrir ungt fólk af erlendum uppruna
Í lok nóvember var fenginn verkefnastjóri til að stýra og undirbúa nám sem er fyrir ungt fólk af erlendum uppruna og eru á aldrinum sextán til tuttugu ára. Verkefnastjórinn fyrir þessu verkefni heitir Þjóðbjörg Gunnarsdóttir og er hún kennari og sér um málefni nýbúa í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Eins og við vitum þá er samfélagið á Suðurnesjum fjölmenningarsamfélag. Ungt fólk af erlendum uppruna sækir nám bæði í grunnskóla og hjá öðrum menntastofnunum á Suðurnesjum. Nemendur koma frá ólíkum menningarheimum, tala ólík tungumál og sum hver standa sig með ágætum í námi á meðan önnur hafa ekki fengið tækifæri á menntun í sínu heimalandi. Menntanet Suðurnesja ákvað að bjóða ákveðnum hópi ungs fólki af erlendum uppruna í sérsniðið nám sem byggist á grunnþjálfun í íslensku og fræðslu á íslensku samfélagi. Þetta nám er til þess fallið að það styrki einstaklingana og gerir þeim kleift að sækja hefðbundið nám hjá skólunum á Suðurnesjum eða annarsstaðar í framtíðinni. Námið verður í boði næstkomandi vorönn 2022.
Leitast er við að bjóða námsgreinar sem efla nemendur sem þekkja ekki íslenskt samfélag og menningarlíf. Nemendur þjálfast í grunnorðaforða, talþjálfun, framburði og hlustun. Nemendur læra að matreiða áhugaverða rétti, t.d. íslenska rétti eða rétti frá öðrum menningarheimum. Þeir eflast í sköpun á hinum ýmsu listformum og læra forritun sem tengjast tölvuleikjagerð. Einnig kynnast nemendur íslensku samfélagi í gegnum kappleiki, söfn og aðra samfélagsviðburði og læra að þekkja nærumhverfi sitt til að átta sig á þeirri fjölbreyttri þjónustu sem sveitarfélögin á Suðurnesjum bjóða íbúum sínum. Kennslan fer fram í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og kennarar sem koma að kennslu og fræðslu koma frá öllum skólunum. Menntanet Suðurnesja stefnir á að bjóða tveggja anna námsbraut haustið 2022 til að styðja enn betur við þennan hóp og munu fagaðilar nýta vorönnina 2022 sem grunn og lærdómsferli fyrir þessa tveggja anna námsbraut.“
Bjarklind segir að lögð sé áhersla í báðum þessum verkefnum að samnýta innviða skólanna fjögurra sem sitja í stjórn Menntanets Suðurnesja, nýta hæfni og reynslu þessara frábæru kennarana sem þar starfa, stjórnendur og tengslanetið sem er til staðar, húsnæðin og annan aðbúnað.
„Það er margt spennandi sem við getum svo gert á næsta ári. Við erum í þessum töluðum orðum að fara yfir ýmis hugsanleg framtíðarverkefni til að efla íbúa og samfélagið okkar. Við lögðum könnun fyrir atvinnulífið til að sjá hvar við getum bætt okkur í úrvali og framboði á menntun fyrir starfsmenn og fyrirtæki á svæðinu. Niðurstöðurnar liggja fyrir fljótlega. Ég bind vonir um að þessar niðurstöður geti verið að einhverju leyti leiðandi. Einnig vitum við að miklar breytingar eru og verða á framtíðarstörfum og við í stjórn Menntanets Suðurnesja viljum taka þátt við að efla okkur sem samfélag og atvinnusvæði á Suðurnesjum,“ segir Bjarklind.
Úr tungumálakenslutíma í Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum.