Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Deilt um fjármál Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 14:13

Deilt um fjármál Reykjanesbæjar

Skiptar skoðanir voru á fjármálum Reykjanesbæjar á síðasta fundi bæjarstjórnar eins og við var að búast, en minnihlutinn setti fram bókun þar sem þau lýstu yfir miklum áhyggjum af stöðu bæjarsjóðs. Sögðu þau m.a. að fjárhagsáætlun bæjarins beri ýmis merki þess að komið sé að lokum kjörtímabilsins og kosningar framundan.

Meirihlutinn svaraði um hæl með bókun þar sem gert er grein fyrir því sem stjórnvöd hafa áorkað á kjörtímabilinu sem er að líða og þeirri þjónustuaukningu sem er framundan í Reykjanesbæ. Fjárhagsstaðan sé góð og nú gefist tækifæri til að styrkja ýmis þróunarverkefni í sveitarfélaginu.

Í bókunin minnihlutans, sem er löng og ítarleg segir m.a.: „Stórfellt endurmat eigna sveitarfélagsins s.s hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja hefur komið í veg fyrir hrun á eiginfjárstöðu sveitarfélagsins.“

Minnihlutinn segist óviss um að Reykjanesbær geti keppt við nágrannasveitarfélög með núverandi meirihluta við stjórnvölinn. Skuldbindingar fari vaxandi og meirihluta tekna sveitarfélagsins sé ráðstafað fyrirfram.

Í bókun meirihlutans kemur fram að fjármál bæjarins séu sífellt að batna. Gert sé ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu á rekstrarreikningi Reykjanesbæjar og fyrirtækja hans og tekið er fram að eiginfjárhlutfall samstæðunnar sé að nálgast 30%.

Lesendum til glöggvunar fylgja hér bókanirnar frá fundinum:

Bókun minnihluta:

Bæjarsjóður á brauðfótum

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2006 ber ýmis merki þess að komið er að lokum þessa kjörtímabils og kosningar framundan. Lögð er áhersla á að kynna sérstaklega stuðning við málefni sem ekki hafa verið í sérstökum forgangi á þessu kjörtímabili og snerta kjör aldraðra og foreldra með börn í vistun eftir fæðingarorlof. Þrátt fyrir að áætlun geri ráð fyrir 12% aukningu útsvarstekna og þrátt fyrir að í áætlun sé gert ráð fyrir 52 milljóna hækkun framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verður tekjuafgangur bæjarsjóðs eftir fjármagnsliði eingöngu rúmar 10 milljónir króna.

Tekjur aukast
Það er jákvætt að tekjur sveitarfélagsins aukast. Vonandi er séð fyrir endann á viðvarandi atvinnuleysi á þessu svæði. Hins vegar er búið að afturkalla lóðaúthlutun til ITP sem allt þetta kjörtímabil hefur verið á næsta leiti og nýjustu fréttir herma að líkur séu á að flotastöðinni verði lokað á næsta ári, sem gerir vonir um batnandi hag að engu. Taprekstur meirihluta sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili veldur því að reksturinn verður í járnum á næstu árum. Stórfellt endurmat eigna sveitarfélagsins s.s hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja hefur komið í veg fyrir hrun á eiginfjárstöðu sveitarfélagsins.
Tilfærsla eigna sveitarfélagsins átti að laga stöðu þess, gera reksturinn skilvirkari og sýnilegri, en sjálfstæðismenn hafa því miður ekki getað haft stjórn á sér. Fasteign hf. hefur verið nýtt til fjárfestinga umfram getu sveitarfélagsins og það mun hafa verulega íþyngjandi áhrif á reksturinn til framtíðar.

Gengishagnaður – gengistap?
Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ gera ráð fyrir 70 milljóna gengishagnaði á árinu 2006. Þetta er í andstöðu við álit Seðlabanka og greiningadeilda bankanna, sem spá því að íslenska krónan gefi eftir á næsta ári, m.a. vegna mikils viðskiptahalla sem stefnir í að vera 15% á þessu ári. Þá mun aukin skuldabréfaútgáfa í íslenskum krónum veikja stöðu hennar þegar að fram í sækir. Það er því ljóst að sjálfstæðismenn tefla mjög djarft þegar þeir sigla á móti straumnum hvað þetta varðar.

Fjárfestingar sveitarfélaga miklar
Sveitarfélög allt í kringum okkur hafa staðið fyrir miklum fjárfestingum á undanförnum árum vegna mikillar fjölgunar íbúa. Það hefur þeim flestum tekist án þess að skila samsvarandi hallarekstri og sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa gert á þessu kjörtímabili. Aðgengi að þjónustu og verð á henni mun skipta sköpum um hvar fólk mun velja sér búsetu til framtíðar. Með bættum samgöngum mun skipta minna máli hvar á stórhöfuðborgarsvæðinu fólk býr og hvar það vinnur. Samkeppin um íbúa er í fullum gangi og fer harðnandi. Höfuðborgin mun ekkert gefa eftir hvað það varðar og ríður nú vaðið með stórfelldum breytingum á gjaldskrá. Borgin hefur tekið fyrsta skrefið í átt að gjaldfrjálsum leikskóla og verða önnur sveitarfélög að fylgja í kjölfarið ætli þau að viðhalda samkeppnishæfni sinni. Það mun reynast Reykjanesbæ erfitt, með núverandi meirihluta við völd að fylgja þessu eftir, þegar skuldbindingar fara vaxandi og meirihluta tekna sveitarfélagsins er ráðstafað fyrirfram.

Fjárhagsramminn sprunginn?
Fjárhagsramminn sem settur hefur verið í þessari áætlun er í raun sprunginn.
Nýgerður kjarasamningur Reykjvíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar mun gera það að verkum að endurskoða þarf launkjör samsvarandi hópa í öðrum sveitarfélögum. Reykjanesbær verður þar ekki undanskilinn.
Kynningarherferð sjálfstæðismanna að undanförnu um meinta góða stöðu Reykjanesbæjar er því farin fyrir lítið.

Guðbrandur Einarsson, Kjartan M. Kjartansson, Jóhann Geirdal, Sveindís Valdimarsdóttir, Ólafur Thordersen.

Bókun meirihlutans:

Sterk staða!

Á nýju ári er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar og fyrirtækja hans verði hagstæð um tæpar 200 milljónir kr. Þetta er í samræmi við niðurstöður endurskoðaðarar áætlunar þessa árs, sem gerir ráð fyrir 159 milljón króna hagnaði.

Eignir Reykjanesbæjar umfram skuldir nema nú 3,4 milljörðum kr og fara vaxandi á næsta ári. Veltufé frá rekstri nemur 61 milljón kr. á þessu ári og stefnir í að verða um 200 milljónir kr. á næsta ári. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er að nálgast 30%.

Þessi jákvæða niðurstaða er afrakstur samtakamáttar mikils meirihlutar bæjarbúa til að gera Reykjanesbæ lífvænlegri að búa í og skapa nýjum íbúum tækifæri til búsetu. Fjölgun bæjarbúa á þessu ári stefnir í 4%, sem er mikill viðsnúningur frá fyrri árum þegar íbúafjöldi stóð nánast í stað og gaf jafnvel eftir.

Þannig eru auknar tekjur að koma mun fyrr til bæjarins en upphaflega var gert ráð fyrir.
Góður árangur í rekstri gefur nú færi á að standa enn betur að þjónustu við fjölskyldufólk í Reykjanesbæ. Í fjárhagsáætluninni eru gerðar tillögur um að hækka stuðning til foreldra sem nýta þjónustu dagmæðra um 127%, þ.e. í 25 þúsund krónur á mánuði. fyrir fulla vistun.

Þá verða fasteignagjöld íbúðarhúsnæðis lækkuð um næstu áramót til samræmis við áætlaðar hækkanir á fasteigamati á árinu.
Þá er ákveðið að veita 25% afslátt af lóðarleigu allra þeirra sem greiða 2% lóðarleigu af lóðarmati og greiða eftir áramótin 1,5%.

Með góðri stöðu okkar í dag eru einnig tækifæri til að styrkja betur margvísleg þróunarverkefni í bæjarfélaginu.
Tónlistarkennsla verður efld og unnið að undirbúningi nýs tónlistarskóla.
Ný 50 metra sundlaug og vatnagarður fyrir yngstu kynslóðina verða tekin í notkun í vor. Þá verður gert íþróttasvæði vestan Reykjaneshallar.
Hafist verður handa við byggingu hjúkrunarheimilis, öryggisíbúða og glæsilegrar félagsmiðstöðvar í þágu eldri borgara. Við hyggjumst styrkja þjónustu barnaverndar og standa að stofnun Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands.
Þá verður lagt fram sérstakt fjámagn til að gera þjónustu við fjölskylduna heilstæðari allt frá því foreldrar huga að barneignum og til unglingsáranna.
Við höldum áfram við uppbyggingu Akurskóla og endurbætum eldri skóla. Lestarmenningarverkefninu verður að sjálfsögðu haldið áfram, Frístundaskólinn efldur og hugað áfram að frístundaúrræðum fatlaðra grunnskólabarna. Til að sinna betur skipulagsvinnu við ört stækkandi gróðursvæði munum við ráða garðyrkjufræðing á Þjónustumiðstöð.

Þrátt fyrir þessa auknu þjónustu og framlög er gert ráð fyrir að jákvæð rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar og fyrirtækja hans verði nær 200 milljónum kr. á næsta ári. Það þýðir að skuldirnar lækka einnig.

Árni Sigfússon, Björk Guðjónsdóttir, Böðvar Jónsson, Steinþór Jónsson, Þorsteinn Erlingsson, Sigríður J. Jóhannesdóttir.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024