Bloggi Víkurfrétta lokað 1. mars
Bloggsvæði Víkurfrétta á www.vikurfrettir.is verður lokað þann 1. mars nk. Víkurfréttir vinna í dag að áherslubreytingum í netsíðum fyrirtækisins. Verið er að skerpa línur og meiri áhersla verður lögð á fréttaþjónustu Víkurfrétta á Netinu á vefsíðunni www.vf.is.
Aðsókn að bloggsvæðinu er langt undir væntingum. Víkurfréttir bera talsverðan kostnað af því að halda úti bloggvefnum á sama tíma og fyrirtækið hefur engar tekjur af blogginu. Fáir virkir bloggarar nýta sér www.vikurfrettir.is og til að nýta fjármuni betur verður þeim varið til að efla frekar aðra þætti á Víkurfréttavefnum vf.is.
Þróun á bloggsvæðum er það hröð að það er ekki á færi fyrirtækis eins og Víkurfrétta að fylgja eftir þeirri þróun, enda kostnaðarsamt og stórar blogg-þjónustur hafa mettað markaðinn. Þá hafa margir bloggarar frekar kosið að færa sig yfir á Facebook og aðrar slíkar síður. Fókusinn hjá Víkurfréttum er því settur á fréttaþjónustu á vf.is á eins metnaðarfullan hátt og efni standa til.
Notendur vf.is munu taka eftir breytingum á forsíðu vf.is á næstu dögum. Síðan verður einfölduð og aðgengilegri. Það verður nánar kynnt þegar breytingarnar verða gerðar opinberar. Þá mun bloggið m.a. hverfa af forsíðu vf.is en verða aðgengilegt á slóðinni www.vikurfrettir.is fram til 1. mars 2009. Eftir þann tíma verður bloggvefurinn tekinn úr sambandi.
Það eru því tilmæli til þeirra sem hafa verið að blogga á www.vikurfrettir.is og vilja eiga skrif sín og myndir sem eru inni á bloggsíðunum, að viðkomandi afriti gögnin út af viðkomandi bloggsíðu fyrir 1. mars 2009. Ekki verður hægt að nálgast gögnin með öðrum hætti frá og með 1. mars nk.
Eins og kynnt hefur verið í prentútgáfu Víkurfrétta, þá hefur efnahagsástandið í landinu þau áhrif á útgáfu Víkurfrétta að prentkostnaður hefur aukist mjög mikið á síðustu vikum og mánuðum. Þetta þýðir að fækka hefur þurft blaðsíðum til að halda niðri kostnaði. Þetta þýðir að mun færri fréttir og greinar komast fyrir í prentaðri útgáfu blaðsins. Þess vegna er nú aukin áhersla á að vísa fólki inn á vef Víkurfrétta, www.vf.is þar sem ítarlegri útgáfur af fréttum er að finna, auk fleiri mynda og svo myndbanda með völdum fréttum.
Næstu vikur má gera ráð fyrir því að blaðið telji færri síður en í venjulegu árferði og því ástæða til að hvetja lesendur til að fylgjast vel með á vf.is. Þar er rekin öflug fréttaþjónsta alla virka daga, en blaðamenn standa einnig bakvaktir um helgar og flytja nýjustu fréttir þegar þær gerast – eða þar um bil!
Ritstjórn Víkurfrétta.