Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aftur til starfa með VIRK
Elva Hrund og Anna Lóa. VF-mynd/Marta.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 7. mars 2020 kl. 07:00

Aftur til starfa með VIRK

Fyrir hrun, í kjarasamningum í febrúar 2008, sömdu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar á Íslandi. Í framhaldinu var sjálfseignarstofnunin VIRK starfsendurhæfingarsjóður stofnuð þann 19. maí. VIRK hóf starfsemi sína í ágúst 2008 og er því tólf ára í dag.

Í byrjun árs 2009 komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna að VIRK sem stofnaðilar. VIRK varð þar með fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar vinnumarkaðarins stóðu saman að.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðstæður eftir hrun kölluðu á hraða uppbyggingu og því ljóst að þær þrengingar sem samfélagið gekk í gegnum á þessum tíma myndu kalla á aukna þjónustu á sviði starfsendurhæfingar. Samið var við stéttarfélög eða samtök stéttarfélaga um allt land um þjónustu sérhæfðra ráðgjafa í starfsendurhæfingu.

Í dag er VIRK með skrifstofur í Reykjanesbæ og í Grindavík en þangað getur fólk leitað sem langar að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir heilsubrest.

Nokkrir ráðgjafar starfa á vegum VIRK á Suðurnesjum. Má þar nefna Björk Ólafsdóttur, Oddnýju Þóru Kristjánsdóttur og Elfu Hrund Guttormsdóttur, ráðgjafa í Reykjanesbæ, og Guðrúnu Ingu Kristjánsdóttur í Grindavík. Þá starfar Anna Lóa Ólafsdóttir í hálfu starfi sem atvinnulífstengill í Reykjanesbæ.

Víkurfréttir tóku tali Elfu Hrund og Önnu Lóu í Reykjanesbæ.

Elfa Hrund Guttormsdóttir er félagsráðgjafi og markþjálfi:

„Við ráðgjafar VIRK þjónustum einstaklinga sem glíma við heilsubrest. Fólk kemur til VIRK til að endurhæfast út á vinnumarkað. Við bjóðum upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Í upphafi þjónustu koma einstaklingar til ráðgjafa og þar fer fram undirbúningsvinna varðandi þau úrræði sem hentar hverjum og einum. Ráðgjafi og einstaklingur gera í sameiningu áætlun um endurkomu inn á vinnumarkað. Áætlunin er einstök og sniðin að þörfum og getu einstaklingsins. Öll þjónusta VIRK miðar að því að efla einstaklinginn og styrkja til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. Þeir einstaklingar sem hafa áhuga á að koma til VIRK í starfsendurhæfingu þurfa að byrja á því að panta tíma hjá lækni, þar byrjar ferlið.

Læknir útbýr beiðni um þjónustu hjá VIRK sem staðfestir hver heilsubresturinn er. Ekki allir eiga erindi í VIRK og ákveðin sía fer fram hjá inntökuteymi VIRK. Inntökuteymið  fer yfir beiðnina og metur hvort einstaklingurinn eigi erindi í starfsendurhæfingu. Ef beiðnin er ekki samþykkt þá eru til önnur úrræði innan heilbrigðiskerfisins. Hlutverk ráðgjafa er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu. Ráðgjafi heldur utan um alla þræði sem viðkemur endurhæfingunni.“   

Anna Lóa Ólafsdóttir er náms- og starfsráðgjafi, markþjálfi og með diplóma-gráðu í sálgæslu: 

„Ég starfa sem atvinnulífstengill og er staðsett tvisvar í viku á Suðurnesjum en aðalstarfsstöðin mín er hjá VIRK í Reykjavík. Þegar einstaklingar í þjónustu hjá VIRK stefna aftur út á vinnumarkaðinn eru þeir flestir tilbúnir að fara sjálfir í atvinnuleit eða til baka á fyrri vinnustað. En það eru alltaf einhverjir sem þurfa aðstoð við atvinnuleitina og þar kem ég við sögu. Ráðgjafi vísar þessum einstaklingum til mín og ég aðstoða við ferilskrá og kynningarbréf, tengslanet og ræði við fyrirtæki á svæðinu. Eins og önnur þjónusta hjá VIRK þá er hún einstaklingsbundin og því mjög misjafnt hvernig atvinnulífstengill vinnur með hverjum og einum. Mér finnst mesti stuðningurinn felast í að vera til staðar fyrir einstaklinga sem finnst þetta oft kvíðvænlegt ferli. Þá fá þeir tækifæri til að spegla sig í mér og oftar en ekki staðfestingu á að þeir eru að gera allt sem þeir geta. Samvinnan í þessu ferli er svo mikilvæg – því við erum ekki vinnumiðlun heldur stuðningur við atvinnuleit. Ég hef líka það hlutverk að koma á samstarfi við fyrirtæki á svæðinu og því er ég að heimsækja sem flest þeirra og leitast eftir formlegu samstarfi við VIRK.“

Ef fólk hefur hug á að kynna sér starfsemi VIRK, þá er tilvalið að fara á heimasíðuna www.virk.is – þar má einnig lesa reynslusögur sem eru mjög áhugaverðar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett markmið um að fjölga starfstækifærum fólks með skerta starfsgetu. Að hafa vinnu við hæfi eykur lífsgæði einstaklinga en atvinnuþátttaka einstaklinga sem búa ekki við fulla starfsgetu er mun minni en annarra.

Til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu þurfa stofnanir ríkisins að fjölga hlutastörfum þar sem vinnutími og verkefni eru aðlöguð að þörfum þess sem ræðst til starfsins. Stjórnendur ríkisstofnana eru hvattir til þess að huga að því þegar störf losna eða ný verða til hvort starfið geti hentað fólki með skerta starfsgetu. Þannig er til dæmis mögulegt að skipta starfi sem einn einstaklingur gegndi áður í tvö eða fleiri störf og koma þannig til móts við þau sem ekki hafa fulla starfsgetu. Þá má vel ímynda sér að ýmis verkefni sem venjulega eru látin sitja á hakanum eða eru ekki nægilega umfangsmikil fyrir starfsmann í fullu starfi geti vel hentað einstaklingi með skerta starfsgetu.

Fólk með skerta starfsgetu er afar fjölbreyttur hópur með dýrmæta menntun og reynslu. Starfsgeta þessara einstaklinga er jafnframt mismunandi sem og þörf fyrir stuðning í starfi.