Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

13 styrkir veittir úr Umhverfissjóði Fríhafnarinnar
Styrkþegar ásamt fulltrúum Fríhafnarinnar.
Þriðjudagur 23. júní 2015 kl. 15:42

13 styrkir veittir úr Umhverfissjóði Fríhafnarinnar

Í dag voru 13 styrkir veittir úr Umhverfissjóði Fríhafnarinnar við hátíðlega athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þorgerður Þráinsdóttir framkvæmdastjóri og Helga Jónsdóttir, stjórnarformaður Fríhafnarinnar, afhentu styrkina. Þetta er í þriðja skipti sem styrkir eru veittir úr Umhverfissjóðnum, en hann var stofnaður í maí árið 2012 með það að markmiði að styrkja verkefni á sviði umhverfisverndar, með áherslu á nærumhverfi Fríhafnarinnar.

Aðilarnir 13 fengu styrk til fjölbreyttra verkefna á ólíkum sviðum. Heildarfjárhæð styrkjanna var tvær milljónir þrjúhundruð og fimmtíu þúsund krónur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blái herinn hlaut styrk til áframhaldandi vinnu við hreinsunarverkefni á Reykjanesi. Blái herinn heldur auk þess fyrirlestra og hvetur fyrirtæki og sveitastjórnir til að tileinka sér bætta umhverfisvitund.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Keflavíkur hlaut styrk til að fegra umhverfið í kringum keppnis- og æfingasvæðis barna og unglinga. Svæðið er við Reykjaneshöllina og munu iðkendur og fjölskyldur þeirra gróðursetja plöntur og snyrta umhverfið.

Skógræktarfélag Grindavíkur hlaut styrk til efniskaupa sem nota á í að leggja stíga og auka aðgengi ferða- og göngufólks í Selskógi og við Þorbjörn. Verkið sjálft munu félagsmenn vinna í sjálfboðastarfi.

Knattspyrnudeild UMFN hlaut styrk til gróðursetningar trjáa við keppnis- og æfingasvæði deildarinnar í Njarðvík. Markmið þessa verkefnis er að bæta og fegra aðstöðu svæðisins.

Áhugahópurinn Heiðafélagið hlaut styrk til gróðursetningar trjáa í nágrenni flugstöðvarinnar á Miðnesheiðinni. Heiðafélagið mun gróðursetja og útvega verkfæri og áburð.

Íbúar við Baugholt og Krossholt hlutu styrk til að byrja að breyta útisvæði þar í grennd í fjölskyldu- og frístundasvæði sem nýtist bæjarbúum á öllum aldri.

Háaleitisskóli í Reykjanesbæ hefur hafið undirbúning að mótun umhverfisstefnu skólans. Skólinn hlaut styrk til að efla starfsfólk sitt í umhverfismálum meðal annars með það að markmiði að nýta nærumhverfið fyrir útikennslu og ræktun.

Leikskólinn Akur hlaut styrk til að koma upp trjálundi á skólalóðinni. Trén munu mynda skjólvegg fyrir börn að leik, hjálpa ræktun gróðurs og veita kjörið tækifæri til að kenna börnum rétta umgengni í náttúrunni.

Lionsklúbbur Njarðvíkur hlaut styrk til áframhaldandi gróðursetningar trjáa í Parísarlundi við Grænásbrekku. Verkefnið er unnið í sjálfboðavinnu og hefur gengið vel síðastliðin ár. Skógfell, skógræktar- og landgræðslufélag Vatnsleysustrandarhrepps, hlaut styrk til að bæta aðstöðu við Háabjalla sem og aðgengi frá undirgöngunum á Vogastapa að svæðinu.

Golfklúbbur Suðurnesja hlaut styrk til áframhaldandi vinnu við uppgræðslu við Leiru, hreinsun á fjörunni og gróðursetningu trjáa á nærsvæði klúbbsins.

Vogahestar hlutu styrk til fegrunar á umhverfi hesthúsahverfisins við Fákadal.

Stóru- Vogaskóli hlaut styrk til að fegra og snyrta umhverfi skólans, hlúa að gróðri á lóðinni og útbúa matjurtagarð sem nemendur munu læra að hirða og nýta. Í skólanum er umhverfisnefnd sem er meðal annars skipuð 12 nemendum úr 5. – 10. bekk.

Fulltrúar Fríhafnarinnar óskuðu styrkþegum til hamingju og þökkuðu þeim fyrir þann dugnað og elju sem þeir inna af hendi, oft og tíðum í sjálfboðavinnu.

Víkurfréttir voru á staðnum og tóku meðfylgjandi myndir. 

VF/Myndir Olga Björt