Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vatnsauðlind í Sveitarfélaginu Vogum
Mánudagur 29. mars 2010 kl. 09:39

Vatnsauðlind í Sveitarfélaginu Vogum

Hinn árlegi vatnsverndardagur var haldinn 22. mars sl. og var að þessu sinni helgaður vatnsgæðum og verndun vatnsauðlindarinnar jafnt hér á landi sem um heim allan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú í þessum mánuði tók gildi nýtt aðalskipulag fyrir Sveitarfélagið Voga sem gildir árin 2008 – 2028. Meðal nýmæla þar er víðtæk verndun þeirra miklu vantsauðlinda sem þar leynast undir yfirborðinu. Byggt er á rannsóknum og kortlagningu sem Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur og fleiri góðir menn unnu á 9. áratugnum vegna svæðisskipulags Suðurnesja.

Yfirborðsvatn finnst varla í Sveitarfélaginu Vogum, en þar er hins vegar gríðar mikið og gott grunnvatn sem streymir til sjávar og á upptök sín í úrkomunni sem fellur á Reykjanesskagann.

Með nýja aðalskipulaginu er meirihluti landssvæðis Sveitarfélagsins Voga nú orðið vatnsverndarsvæði, þ.e. nær allt landið fyrir sunnan Reykjanesbraut. Þar er engin byggð, engin vélknúin umferð og raunar ekkert sem mengar það mikla vatn sem þar fellur til jarðar og seytlar ofurhægt gegnum jarðlög í átt til sjávar í Vogavík, Vatnsleysuvík og á Vatnsleysuströnd.

Vatnsverndin á að tryggja að ekki verði að lítt athuguðu máli farið af stað með framkvæmdir á svæðinu sem geti á einhvern hátt spillt þessari vatnsauðlind eða gert heilnæmi hennar ótrúverðugt. Ekki er gert ráð fyrir byggð á þessu svæði næstu áratugi enda gríðarmikið byggingarland til reiðu fyrir norðan Reykjanesbraut. Mannvirki og starfsemi sem kunna að verða leyfð síðar meir á vatnsverndarsvæðinu munu lúta mjög ströngum reglum um mengunarvarnir.

Gera má ráð fyrir að borað verði eftir vatninu sunnan við Reykjanesbraut og sunnan við þær raflínur sem henni fylgja til að útiloka hugsanlega mengun. Það þarf þó ekki að leita langt suður fyrir þessi mannvirki því grunnvatnsstraumurinn er alla jafna til norðurs í átt til sjávar.

Ef horft er langt fram í tímann er líklegt að þetta verði verðmætasta náttúruauðlindin í sveitarfélaginu og þó víðar væri leitað. Nágrannasveitarfélög og útflytjendur vatns munu renna hýru auga til þessa heilnæma vatns. Með þessu er umfram allt tryggt að vaxandi byggð í Vogum mun ávallt hafa greiðan aðgang að gnægð hágæðavatns. Þá verða hér góð tækifæri fyrir ýmis konar starfsemi sem þarf mikið af heilnæmu vatni.

Í kafla 2.3.7 í greinargerð aðalskipulagsins er ýtarlega fjallað um þessa vatnsvernd, sjá hér: http://www.vogar.is/Files/193_ask-vogar-greinargerd-nov-09.pdf

Væntanlega verður bráðlega lagt fram á Alþingi frumvarp um verndun vatns. Þar með munu íslensk lög uppfylla kröfur vatnatilskipunar Evrópu sem gengur út á að vernda vatn og gæta þess að það spillist ekki. Vonandi höfum við í Sveitarfélaginu Vogum þegar uppfyllt þær kröfur.


Þorvaldur Örn Árnason
formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga






Ljósmynd: Oddgeir Karlsson