Ungur gekk ég Keflavíkurgöngur
Mér þótti grein Ásmundar Friðrikssonar, alþingmanns, á vef Víkurfrétta þann 14. maí hinn mesti skemmtilestur. Þar fer Ásmundur á kostum og sendir pílur í ýmsar áttir. Tilefnið er að Ásmundi virðist hafa sárnað að meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar leyfði sér að svara skeytasendingum hans í Morgunblaðinu, þar sem hann sakaði bæjarstjórnir á Suðurnesjum um að draga lappirnar í stuðningi við hann og fleiri sjálfstæðismenn, sem virtust ekki geta náð samkomulagi innan ríkisstjórnar Íslands um stórkostlega uppbyggingu á Vallarsvæðinu og í Helguvík.
Ég skil það vel að Ásmundur sé sár. Ekkert virðist liggja eftir hann nema hugmyndin um samviskugarðana sem engan framgang fékk. Það er því gráupplagt að kenna bara kaldastríðs-sérvitringunum um að hvorki gengur né rekur hjá honum í sókninni eftir glópagullinu.
En auðvitað svíður það að núverandi meirihluta hafi tekist að reka þetta sveitarfélag án gífuryrða og loforða sem ekki standast. Nú átti að hlaupa til enn einn ganginn en í þetta sinn fannst bara enginn til að stíga dansinn með honum.
Mér þótti það áhugavert sem ungum manni að ganga Keflavíkurgöngur og velta fyrir mér tilgangi stríðs og þörfinni fyrir heri. Ég hef ekki enn fundið þann tilgang en styð svo sannarlega samvinnu ríkja í þeim tilgangi að viðhalda friði í heiminum. Ég hef hins vegar ekki hugsað mér að elta Ásmund Friðriksson út í skurð. Þar getur hann verið einn síns liðs.
En um leið ráðherrarnir Bjarni Ben, Katrín J. og Sigurður Ingi koma suður með veskið og skipa okkur að fara að grafa skal ég ræsa skurðgröfurnar. Þangað til bíð ég bara rólegur.
Ég hef séð þetta allt saman áður.
Guðbrandur Einarson
kaldastríðs-sérvitringur