Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 3. febrúar 2003 kl. 17:09

Samstarf heimila og skóla.: Lífsleikni og líðan nemenda í skólum

Að takast á við lífið og styrkja sjálfsmynd sína er eitt af því sem börn læra samhliða hinu hefðbundna námi í grunnskóla. Mikið reynir á þennan námsþátt t.d. á unglingsárunum. Lífsleiknitímar eru einn vettvangur þar sem þetta fer fram og er það yfirleitt umsjónar-kennari sem sér um lífsleiknikennslu í sínum umsjónarbekk. Kennsluáætlun fyrir lífsleikni á unglingastigi er stundum mótuð af námsráðgjöfum og tengist því að nemendur kynni sér áhugasvið sitt, skoði eiginleika sína og möguleika til náms. Þannig læra þeir um lífið og tilveruna út frá öðru en námsbókum. Læra t.d. að setja sér markmið og leggja drög að framtíðarnámi. Foreldrar fagna sérstaklega tilkomu námsráðgjafa í grunnskólum í Reykjanesbæ og binda miklar vonir við störf þeirra.Umsjónarkennarinn og bekkjarandinn
Að nemanda líði vel í skólaumhverfinu er grundvallaratriði í námi hans. Er þá átt við líðan nemandans og aðstæður hans í skólanum hvort sem er inn í kennslustund, í frímínútum, búningsklefum í íþróttum, í mötuneytinu, á skólalóðinni eða annars staðar þar sem hann dvelur á skólatíma. Það beinir sjónum okkar að mikilvægu atriði í skólaumhverfinu sem er góður bekkjarandi, hvetjandi námsumhverfi og ekki síst jákvætt viðmót alls starfsfólks skólans. Í þessu sambandi gegnir umsjónarkennari lykilhlutverki sem sá aðili sem nemand-inn hefur vísan aðgang að og treystir helst á. Umsjónarkennara ber að ganga í mál er varða umsjónarnemendur hans komi eitthvað upp sem betur má fara. Samstarf umsjónarkennara og foreldra er einnig áríðandi ekki síður en trúnaður umsjónarkennara við umsjónarnemanda sinn. Í þessu sambandi þarf umsjónarkennari oft og tíðum að hafa frumkvæði og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Sá stuðningur getur m.a. birst í ábendingum eða uppeldis-legum leiðbeiningum. Umsjónarkennarar gefa umsögn um nemendur sína í foreldraviðtölum sem fram fara að jafnaði tvisvar á ári. Auk þess hafa kennarar viðtalstíma og eðlilegt að þeir hafi frumkvæði að samskiptum við foreldra. Skólastjórnendur hafa markvisst hvatt foreldra til samstarfs og foreldrar hafa góðan aðgang að umsjónarkennara bæði með viðtalstímum og einnig er í boði að hafa samband með tölvupósti. Heimsíður skólanna bjóða upp á hagnýtar upplýsingar um skólastarfið og er góð leið fyrir foreldra að nálgast skólastarfið. Hrós og hvatning eru stundum kölluð H-vítamín sem öllum eru nauðsynleg bæði kennurum, nemendum og foreldrum. Í hvetjandi skólaumhverfi er samstarf heimila og skóla virkt í gegnum fyrrgreindar leiðir. Stjórnir foreldrafélaga hafa hvatt foreldra til að temja sér jákvæð viðhorf til skólans og nálgast hann af virðingu.

Foreldrastarfið
Bekkjarfulltrúar hafa verið kosnir í öllum grunnskólum bæjarins og gegna þeir lykilhlutverki í samskiptum foreldra og skólans.
Það er áríðandi að umsjónarkennarar sjái til þess að foreldrar kjósi sér bekkjarfulltrúa eða að þeir séu skipaðir. Það auðveldar umsjónarkennara samstarf við foreldra og hjálpar til að byggja upp góðan bekkjaranda og er nauðsynlegt svo að nemendur, kennarar og foreldrar hafi samskipti. Stjórnir foreldrafélaga halda reglulega fundi með bekkjarfulltrúum og þar eru rædd stefnumið og hugmyndir í foreldrastarfinu.
Foreldrafélögin og foreldraráðin hafa samstarfsvettvang FFGÍR. Á næstunni verða kynntar handbækur foreldrafélaga í grunnskólunum sem er samstarfs og gæðaverkefni þeirra hjá FFGÍR og ber yfirskriftina “Betri foreldrafélög í Reykjanesbæ”. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um störf félaganna og ætti að auðvelda samstarf heimila og skóla þar sem félögin gera sig sýnileg með skipulögðum hætti og á sameiginlegum vettvangi. Yfirmarkmið allra þessara aðgerða er að bæta skólastarf í bænum okkar og líðan nemenda í skólanum sem mun leiða til bætts árangurs bæði í námi og starfi.

Helga Margrét Guðmundsdóttir


Myndin er fengin af vef Holtaskóla í Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024