Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 21. febrúar 2000 kl. 09:35

Reykjanesbrautin og ráðherrann.

Markaðs- og atvinnumálskrifstofa Reykjanesbæjar hélt almennan fund í Eldborg 11. febrúar um breikkun Reykjanesbrautar. Ég fór af forvitni um hvað málinu liði og þótt þessi fundur hafi fengið nokkra umfjöllun í staðarblöðunum fannst mér rétt hripa nokkrar línur í Víkurfréttir, um frá mínu sjónarhorni, um fundinn. Hagfræðingur var búinn að fullvissa mig um, að sennilega væri breikkun brautarinnar í tvær akbrautir arðsamasti kosturinn í vegaframkvæmdum á Íslandi, ef frá væri talin slaufa á gatnamótum Miklu- og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Jóhann Bergþórsson, Hagvirkismaður lét fyrir löngu reikna arðsemi af breikkun Reykjanesbrautar og bauðst til að lána fé til framkvæmda gegn endurgreiðslu af fjárlögum til einhverra ára en því boði var hafnað. En hversu vítt breiðir Reykjanesbrautarmálið arma sína um þjóðfélagið? Hver er t.d. arðsemi þess að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og flytja flugumferðina alla til Keflavíkur með bættum samgöngum? Ætti að fjárfesta milljarða í Vatnsmýrinni þegar fyrirséð er að flugvöllurinn þarf burt úr miðbænum? Hvað segir umhverfismat um Reykjavíkurflugvöll eða um Reykjanesbraut? Eða heilbrigðismat? (það vita reyndar fáir hvað er). Jákvætt umhverfis- og heilbrigðismat á framkvæmdinni þarf að liggja fyrir. Ég bjóst við að fundurinn í Eldborg mundi gefa marktækar upplýsingar um mikilvægi framkvæmdarinnar fyrir Suðurnesjabúa, ekki bara arðsemi fjárfestingarinnar sem slíkrar, heldur einnig þjóðhagslega hagkvæmni mannvirkisins með tilliti til byggðarþróunar á höfuðborgar- og Suðurnesjasvæðinu samanlögðu. Ég bjóst við ítarlegum gögnum á borðið um breikkun Reykjanesbrautar og möguleikum á fjármögnun verkefnisins, svo menn gætu sameiginlega lagst á árar rökfimi og vísinda þannig að ígrunduð niðurstaða næðist til skjótrar ákvörðunar. Þá yrði þess skammt að bíða að brautin opnaðist tvöföld í báðar áttir. En annað var upp á teningnum á fundinum. Um hagkvæmni og arðsemi fjárfestingarinnar var ekki fjallað. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan lagði upp málið á þeirri forsendu að Reykjanesbrautin væri hættuleg. Sýnt var hvað slysin á brautinni kostuðu tryggingafélögin í peningum samkvæmt tölum frá Sjóvá Almennum og ekki var lagt mat á hinn afleidda samfélagslega kostnað (af hverju ekki?). Alls ekki skal gera lítið úr þessum þætti, en það þarf að taka með í reikninginn að slys verða líka á hraðbrautum þegar verið er að ræða slys á annað borð. Slys á hraðbrautum virðast almennt færri en á öðrum vegum, en þegar þau verða þá verða þau hrikaleg. Í föstudagsóveðrinu, 11. febrúar, rak hver margbílaaftanááreksturinn annan og maður sá fyrir sér bílhræjakös á Reykjanes-"hraðbrautinni" í glórulausum vetrarstorminum. Þegar Markaðsskrifstofan vildi sýna myndbandsviðtal við fórnarlamb Reykjanesbrautarinnar, var Árna Mathiesen ráðherra öllum lokið. Að ota kaunum slasaðra inn í umræðuna átti ekki uppá pallborðið og nennti hann ekki að taka frekari þátt í fundinum ef svo væri, sagði sér þætti þannig umræða ekki við hæfi, slys yrðu á öllum vegum landsins og með því að reka málið á valdi tilfinninganna kæmust menn hvergi langt. Ég hefði frekar kosið að Árni sæti áfram, en afstaða hans er skiljanleg, því slysaumræðuna mátti túlka sem ásökun á yfirstjórn samgöngumála, að þeirra væri ábyrgðin á slysunum. Slíkt er auðvitað fráleitt. Eftir að Árni kvaddi fóru aðrir þingmenn kjördæmisins í pontu og voru í orði sammála um að þeir væru sammála um að breikka þyrfti brautina. Umferðaröryggisfólk lagði orð í belg og Fjölbrautaskólanemar úr FS boðuðu undirskriftasöfnun í málinu. Niðurstaðan: Fundurinn minnti á þá staðreynd að slys gera ekki boð á undan sér, hvorki á Reykjanesbrautinni né á öðrum vegum þessa lands. Efnislega var ekkert merkilegt sagt sem er miður. Menn þurfa að komast úr hjólförum bágborinnar röksemdaleiðslu og ruglandi a.m.k. þegar mikið liggur við og það gildir í þessu máli, vilji menn þoka því áleiðis. Skúli Thoroddsen
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024