Reykjanes Geopark
- aukin tækifæri í ferðaþjónustu allt árið -
Ferðaþjónusta er orðin ein af helstu undirstöðum atvinnulífs á Íslandi og þar með talið á Reykjanesi. Sjávarútvegurinn er enn öflugasti atvinnuvegur svæðisins og skapar mestar útflutningstekjur, en undanfarin ár hafa ferðaþjónustufyrirtækin verið að eflast og stækka, bæði hvað varðar starfsmannafjölda og fjárhagslega veltu. Í Grindavík skapa sjávarútvegsfyrirtækin um eitt þúsund störf, en ferðaþjónustan á þriðja hundrað, svo dæmi sé tekið.
Sífellt er leitað leiða til að efla ferðaþjónustuna þannig að hún geti skapað meiri verðmæti. Hér á Reykjanesi er enginn skortur á ferðamönnum, í það minnsta ekki yfir háannatímann á sumrin. Um flugstöðina fara flestallir erlendir ferðamenn sem koma til landsins og slökun í Bláa lóninu er ómissandi hluti heimsóknar til Íslands. Verkefni okkar hér á Reykjanesi er því öðru fremur að bjóða sem mesta og fjölbreyttasta þjónustu fyrir ferðamenn sem fara um svæðið. Það gerum við líklega best með því að skapa okkur sérstöðu sem leiðir til þess að gestir sæki okkur heim allt árið um kring.
Hvað er Geopark?
Sveitarfélögin á Suðurnesjum, ferðamálasamtök Suðurnesja, Bláa lónið, Keilir, Heklan-atvinnuþróunarfélag og HS Orka hafa undanfarna mánuði unnið að því að Reykjanes fái vottun sem Geopark eða jarðvangur. Verkefnið á rætur sínar að rekja til vinnu við Auðlindastefnu Grindavíkurbæjar og vinnu Ferðamálasamtaka Suðurnesja við 100 gíga garð á Reykjanesi.
Í heiminum eru 92 jarðvangar í 25 löndum með viðurkenningu frá UNESCO og Global Geopark Networks. Samtökin veita Geopark vottun, eða gæðastimpil á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Svæði geta verið áhugaverð vegna ýmissa þátta, s.s. rannsókna, fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru, sjaldgæfra jarðminja o.s.frv. Flestir jarðvangar í heiminum stefna að því að tryggja sjálfbæra ferðaþjónustu með bættu viðhorfi og þekkingu á jarðminjum og náttúru og uppbyggingar jarðfræðiferðamennsku. Stefnt er að því að sækja um vottun fyrir lok þessa árs, en staðfesting muni nást á næstu tveimur árum.
Hvað getum við boðið upp á?
Markmið verkefnisins er að nýta sérstöðu svæðisins sem eins helsta jarðfræðiundurs veraldar til að laða að gesti sem dvelji lengur á svæðinu og nýti fjölbeyttari þjónustu en nú er. Auk þess að fræða heimamenn um undur svæðisins og gera þá enn stoltari af uppruna sínum, hefðum og heimasvæði.
Á Reykjanesi eru orkuver sem framleiða endurnýjanlega orku, einstakur baðstaður sem byggir á afurðum orkuvinnslunnar, fjöll, hraun, gígar, heitir hverir, strandlengja og jarðmyndanir sem eiga sér fáar líkar í veröldinni. Að ógleymdum flekaskilum Evróasíu og Ameríku sem ganga á land við Reykjanes. Þessir ótrúlegu staðir eru aðalréttir sem við viljum matreiða og bjóða ferðamönnum undir heitinu Reykjanes Geopark, en hvað þeir velja sér í forrétt og aðalrétt er undir þeim komið og því sem heimamenn vilja bjóða þeim. Það geta verið réttir sem tengja saman náttúru svæðisins og menningu þess og sögu. Jarðvangur er ekkert án íbúanna sem í honum búa. Í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um Ísland allt árið verður horft til þess að fjölga gestum utan háannatímans.
Á næstu vikum og mánuðum munu íbúar svæðisins verða meira og meira varir við vinnu og hugmyndafræði Reykjanes Geopark og vonumst við til þess að jafnt aðilar í ferðaþjónustu og allur almenningur á svæðinu taki verkefninu vel og standi saman um að verkefnið nái fram að ganga.
Róbert Ragnarsson,
bæjarstjóri í Grindavík.