Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Offíseraklúbburinn á Keflavíkurflugvellli
Miðvikudagur 25. mars 2009 kl. 17:09

Offíseraklúbburinn á Keflavíkurflugvellli

Offinn eða Offíseraklúbburinn á Keflavíkurflugvelli dregur nafn sitt af liðsforingjaklúbbi varnarliðsins sem starfræktur var í húsinu um áratugaskeið. Elsti hluti hússins, inngangur og vesturálma, var reistur árið 1950 sem kvikmyndasalur og verslun fyrir starfsmenn bandaríska fyrirtækisins Lockheed Aircraft Overseas Corporation sem annaðist rekstur Keflavíkurflugvallar fyrir Bandaríkjastjórn á árunum 1948 – 1951. Eftir stofnun varnarliðsins árið 1951 fékk samkomustaður og mötuneyti liðsforingja – Officers‘ Open Mess (opið mötuneytissamlag liðsforingja) – sem í daglegu tali nefndist Officers‘ Club, húsið til afnota. Klúbburinn var stækkaður og bætt við eldhúsi og samkomusölum og rekið veitingahús með bar og danssal fyrir helstu samkomur liðsforingja og yfirmanna varnarliðsins. Aðrir liðsmenn höfðu eigin veitingahús sem rekin voru með svipuðu sniði og einnig bandarískir borgaralegir starfsmenn.

Varnarliðsmenn störfuðu í fyrstu flestir um skamma hríð á Keflavíkurflugvelli og þar voru fáar fjölskyldur. Klúbbar gegndu mikilvægu félagslegu hlutverki og meðlimir og gestir nutu veitinga og skemmtana á vægu verði. Vinsælar íslenskar hljómsveitir komu reglulega fram í klúbbunum ásamt bandarískum skemmtikröftum sem ferðuðust til herstöðva í Evrópu og höfðu þá gjarnan viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Er fjölskyldufólki fjölgaði í varnarliðinu breyttust þarfirnar og áhersla varð á fjölbreyttara framboð skemmtana og afþreyingar. Klúbbar á borð við Offíseraklúbbinn glímdu þá við sömu viðfangsefnin og stóru skemmtistaðirnir íslensku sem skyldaðir voru til að bjóða umfangsmikla þjónustu í mat og drykk þótt reksturinn væri nánast eingöngu dansleikjahald. Klúbbarekstur Bandaríkjahers var almennt sameinaður í hagkvæmari einingar þar sem yfirmenn og undirmenn deildu með sér veitinga- og skemmtistöðum að ákveðnu marki í samræmi við ríkjandi reglur um samskipti yfir- og undirmanna. Klúbburinn fékk nýtt nafn á 10. áratugnum – The Three Flags Club – sem hafði skírskotun til fána Bandaríkjanna, Íslands og NATO sem blöktu yfir varnarstöðinni. Hann var opinn öllum varnarliðsmönnum og starfsmönnum nema O‘Malley‘s Pub í vesturálmunni sem þá var hinn eiginlegi liðsforingjaklúbbur. Í hugum Íslendinga hét Three Flags Club þó áfram Offíseraklúbburinn. Starfsmenn voru bandarískir og íslenskir og veitingastjórar og matreiðslumenn jafnan íslenskir, a.m.k. síðustu áratugina.

Offinn hafði matsölu með einföldu sniðið í hádeginu og á kvöldin auk íburðarmeiri þjónustu og áfengissölu á kvöldin og dansleiki um helgar. Þá voru þar haldin einkasamkvæmi og ráðstefnur í Ball-Room að ógleymdum árshátíðum herdeilda og gala-samkomum á borð við Navy Ball og Air Force Ball. Yfirmenn varnarliðsins héldu tignum gestum samkvæmi í VIP-Room og stærri samkvæmi voru í Geysir Room sem jafnframt var samkomusalur Kiwainsklúbbsins Brúar sem starfræktur var um árabil með þátttöku Íslendinga, Bandaríkjamanna og fólks af öðru þjóðerni sem starfaði á Vellinum.

Offinn og aðrir klúbbar á Vellinum voru einnig vinsælir meðal Íslendinga, einkum fyrir daga bjórs og vínveitingahúsa á Suðurnesjum. Aðgangur var þó almennt ekki opinn nema í boði varnarliðsmanna en eftirliti með því var síst framfylgt í Offanum. Tekjur af bjórþyrstum nágrönnunum voru verulegar og þóttu kærkomnar, einkum er reksturinn þyngdist á síðari árum. Lokun varnarstöðvarinnar fyrir óviðkomandi umferð er flugstöð Keflavíkurflugvallar var flutt árið 1987 hafði talsverð áhrif á afkomu klúbbsins. Starfseminni var hætt sumarið 2006 skömmu fyrir brottför varnarliðsins.

Friðþór Eydal
24. mars 2009

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024