Norpa úti í kulda og trekk vegna Strætó
Eitt af þeim megin verkefnum sem bíða nýrrar bæjarstjórnar í Suðurnesjabæ, er að leita allra leiða til að bæta almenningssamgöngur milli byggðarlaganna á Suðurnesjum annars vegar og hins vegar Suðurnesja og Reykavíkur.
Fjarri fer því að það sé boðlegt að nemendum FS sem búsettir eru í Suðurnesjabæ standi ekki önnur tímasetning á brottför til boða úr heimabæ sínum í skólann nema kl. 07 en kennsla hefst ekki fyrr en kl. 08:15; þau þurfa sem sagt að bíða í rúma klst., jafnvel norpa úti í kuldanum þar til skólahúsið opnar. Vissulega kemur kl. 07 strætóinn mörgum til góða sem hefja vinnu sína fyrr, en þarna er um stóran hóp nemenda að ræða, þannig að hagsmunir þeirra og heimilanna eru miklir.
Ekki bætti úr skák, þegar Strætó aflagði notkun farmiða, sem fáanlegir voru í íþróttahúsunum (þau opna kl.06) og tók þess í stað upp app, sem aðeins virkar innanbæjar í Reykjavík, en ekki á okkar slóðum. Þeir sem nota þessa samgönguleið, þurfa því að leita í öllum vösum, skúffum og kirnum að skiptimynnt til að borga með fargjaldið.
Í grein sem ég las eftir Hallgrím Helgason rithöfund bar hann samgöngum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að BSÍ í Reykjavík ekki góða söguna. Þar greinir hann frá því að það hafi tekið tvær klst. frá því að hann settist inn í vagninn þar til hann loks komst á áfangastað. Þetta er ekki boðlegt.
Fjölmargir hafa sömu eða svipaða sögu að segja, sem lagt hafa það á sig að taka strætó til Reykjavíkur héðan að sunnan. Yfirleitt er tíminn tvær klst. eða þar um bil og tími fólks er dýrmætur.
Á sama tíma og ætlast er til af okkur að við reynum að draga saman notkun einkabílsins förlar þjónustu Strætó. Á sama tíma og þess er vænst að við stuðlum að hreinna lofti og minni mengun, gerir áætlun Strætó fólki, oftar en ekki, ókleyft að notast við þann samgöngumáta.
Þetta þarf að laga. Bæjarstjórn ber að huga að velferð allra sinna þegna, á hvaða sviði sem það er. Þetta höfum við á X-S listanum fullan hug á að koma í viðunandi ástannd.
Kjóstu X-S. Nú er tækifæri til að vinna betur, gera eitthvað gott SAMAN.
Önundur S. Björnsson.