Loftlagsmálin og við
Nú fer að ljúka mikilli ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem þjóðir heims reyna að ná samkomulagi um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Íslensk stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum og það kostar miklar breytingar jafnt í atvinnulífi sem einkalífi fólks.
Það er álit flestra vísndamanna að verði ekkert að gert muni meðalhitinn á jörðinni halda áfram að hækka með þeim afleiðingum m.a. að jöklar bráðni og yfirborð úthafsins hækki umtalsvert. Menn greinir á um hversu hratt það muni gerast og hversu mikið sjórinn muni hækka en samkvæmt svartsýnustu spám muni hækkunin nálgast einn meter á þessari öld og stóru jöklarnir okkar gjörbreytast. Árin 1995 – 2008 rýrnaði Hofsjökull um 5% og það er bara rétt byrjunin. Því er spáð að efti 2 aldir verði íslensku jöklarnir alveg horfnir!
Menn óttast róttækar veðurfarsbreytingar víða um heim svo byggð og akurlendi lendi undir sjó og vistkerfi raskist t.d. þannig að stór svæði breytist í eyðimerkur. Líklegt er talið að það hlýni verulega hér á norðurslóðum (sem er út af fyrir sig í lagi) en þó er hugsanlegt að bráðnun jökla gæti lamað Golfstrauminn og þá gæti orðið óbyggilegt hér vegna kulda.
Hver gætu áhrifin orðið hér á Suðurnesjum? Á utanverðum Reykjanesskaga sígur land um nokkra millimetra á ári og brimið nagar ströndina. Hækkun sjávarborðs yrði vatn á millu þessara eyðingarafla. Sjórinn mun ganga hraðar á ströndina og hætta af sjávarflóðum eykst verulega. Grípa yrði til stórtækra sjóvarna til að bjarga neðsta hluta byggðar í öllum bæjarfélögunum svo ástandið gæti farið að minna á Holland um næstu aldamót.
Hverju getum við hvert og eitt breytt til bóta? Margt smátt gerir eitt stórt. Á Íslandi kemur gróðurhúsaloft aðallega frá umferð bíla, skipa og flugvéla, frá stóriðju og dálítið frá jarðhita, sorpförgun og landbúnaði. Við framleiðslu varnings sem við flytjum inn getur hafa losnað umtalsvert gróðurhúsaloft í örðum löndum. Með sparneytni, betri nýtingu, vistvænni atvinnustefnu og lifnaðarháttum getum við hvert og eitt lagt af mörkum til að leysa þetta heimsvandamál. Forðst óþarfan akstur, ganga og hjóla þegar því verður við komið (bæta heilsuna í leiðinni) og hugsa okkur um áður en við kaupum verksmiðjuframleiddan varning. Til að styðja hvert annað er ráð að taka þátt í verkefninu Vistvernd í verki (í umsjón Landverndar) og stofna visthóp.
Þorvaldur Örn Árnason
Vogum