Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Leiðrétting
Föstudagur 18. nóvember 2022 kl. 08:34

Leiðrétting

Í erindi sem Eiríkur Hermannsson flutti á 150 ára afmælishátíð Gerðaskóla 7. október sl. og birtist í heild í Víkurfréttum eru staðreyndavillur sem hér verður leitast við að leiðrétta.

Eiríkur sagði – og skrifaði:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Gerðaskóli er ein elsta menntastofnun á landinu og að margra mati næstelsti barnaskóli sem starfað hefur samfleytt, aðeins barnaskólinn á Eyrarbakka á sér lengri sögu.“

Síðar í ræðunni og greininni segir Eiríkur: „Skólastarf í Gerðaskóla hófst 7. október 1872 og starfsemi skólans á Vatnsleysuströnd skömmu seinna.“

Undirritaður hefur birt í Víkurfréttum vikulega allt þetta ár þætti úr skólasögu Vatnsleysustrandarhrepps og Sveitarfélagsins Voga. Þá er hægt að lesa á www.vf.is/pistlar, á www.vogar.is og á https://www.storuvogaskoli.is/150-ara/thaettir-ur-sogu-skolans.

Í fyrstu þáttunum, sem birtust í byrjun árs, eru dregin fram í dagsljósið gögn um það að skóli er formlega stofnaður á Vatnsleysuströnd 12. september 1872 á opnum fundi í nýbyggðu skólahúsi og hófst kennsla þar 1. október það ár, viku á  undan stofnun Gerðaskóla. Um það vitnar handskrifuð eftirgerð fundargerðar stofnfundarins, sjá mynd. Þar kemur fram að þá þegar sé búið að að byggja húsið og ráða fyrsta kennarann, Cand theol Oddg. Guðmundsson. Oddgeir lýsir skólanum og starfinu í grein í Þjóðólfi í jan. 1873. Presturinn hóf söfnun 1870, viðar var aflað í húsið og keypt undir það jörð 1871 og það byggt sumarðið 1872. Skólabörnin eru þrjátíu þennan fyrsta vetur og tíu þeirra heimilisföst í skólanum.

Eiríkur sagði – og skrifaði enn fremur:

„Fyrsti barnaskólinn í Reykjavík starfaði á árunum 1830–1846 og aftur upp úr 1860. Ekki er alveg ljóst hvort starfsemin var óslitin í Reykjavík eftir það.“ 

1830 var stofnaður barnaskóli í Reykjavík (í Aðalstræti) með átján börnum, þar sem öll kennsla fór fram á dönsku, en sum voru börn danskra kaupmanna. Skólagjald einhverra barna var greitt úr Thorkillii-sjóði. Að auki greiddi sjóðurinn halla á rekstri skólans, u.þ.b. 100 rd á ári. Það þótti ekki samræmast reglum sjóðsins, hætti sjóðurinn að styrkja skólann 1849 og var þá rekstrargrundvellinum kippt burt og lagðist skólinn niður. Síðan líður áratugur uns Alþingi setti, eftir áralangt þjark og m.a. forgöngu Jóns Sigurðssonar, lög um barnaskóla í Reykjavík 1859. Sá skóli hóf starfsemi í Hafnarstræti í Reykjavík 1862. Fyrsti skólastjórinn var Helgi E Helgason. Hann er sagður hafa markað spor í skólastefnu Reykjavíkur í 30 ár og var einn af stofnendum hins Íslenska Kennarafélags 1889. Þjóðólfur 30.1.1869 skýrir svo frá að Thorkilli-sjóðurinn megi veita fátækum bömum, er ganga í barnaskólann í Reykjavík, 10 rd. hverju í skólapeninga og var sex börnum í Reykjavík veittir 10 rd. 

Ég hef engar heimildir séð um annað en að Barnaskóli Reykjavíkur, eini lögbundni barnaskólinn á 19. öld, hafi starfað óslitið frá 1862 og sem forveri grunnskóla Reykjavíkurborgar. Eiríkur virðist véfengja það í umræddu ávarpi og grein. Hafi Eiríkur fundið einhverjar heimildir um að rof hafi verið á starfsemi Barnaskóla Reykjavíkur frá 1862 er hann hér með vinsamlega beðinn um að benda á þær. 

Það má til sanns vegar færa að Gerðaskóli sé þriðji til fjórði elsti barnaskóli landsins sem starfað hefur samfleytt. Þeir prestarnir og frændurnir Sigurður B. Sívertsen og Stefán Thorarensen, sem voru driffjaðrir stofnunar barnaskóla árið 1872, hvor í sinni sveit, undirbjuggu það mál í nokkur ár og svo hófst starfsemin sama haustið hjá báðum. Munaði þar aðeins viku. Að Gerðaskóli sé næstelsti barnaskóli landsins sem starfað hefur samfleytt stenst engan veginn. Það er beinlínis rangt. 

Þorvaldur Örn Árnason


Heimildir

150 ára Gerðaskóli. Ávarp Eiríks Hermannssonar, fv. skólastjóra Gerðaskóla. 150 ára Gerðaskóli - Víkurfréttir (vf.is)

Þættir úr 150 ára skólasögu Vatnsleysustrandarhrepps og Sveitarfélagsins Voga 1872-2022,  www.vf.is/pistlar, á www.vogar.is  eða á https://www.storuvogaskoli.is/150-ara/thaettir-ur-sogu-skolans

Yfirlit sögu skóla í Vatnsleysustrandarhreppi birtist í Faxa 1990: Skólar á Suðurnesjum: Brunnastaðaskóli, Faxi 1990  Faxi - 1. tölublað (01.01.1990) - Tímarit.is (timarit.is)

Skúli Magnússon: Byggðu skóla fyrir almenn samskot á Brunnastöðum, Faxi 01.05.1979.

St. Thorarensen. 1873. Auglýsing (jörð, kennari). Þjóðólfur 14.3. 1873. Innihaldsrík auglýsing.

Oddgeir Guðmundsen. 1873. Barnaskólinn á Vatnsleysuströnd. Þjóðólfur, 25.árg. 21. jan. 1873 bls. 48-49.  

St. Thorarensen.  Skýrsla til stiftsyfirvalda um ástand og athafnir skólans árið 1873-74, hluti skýrslunnar er birtur í Víkverja 18.4.1874. 

St. Thorarensen. Skýrsla um skólahald 1876-1879. Ísafold. 29.3.1879. Ítarleg skýrsla í léttum dúr. Segist áður hafa skrifað um skólann í blöðin 1877, en Google finnur það ekki undir St.Thorarensen.

St. Thorarensen. Skýrsla um skólahald 1875-1876. Þjóðólfur 8.5. 1876. M.a. um góðan skóla í Hákoti í Njarðvík þar sem Pjetur Pjetursson kenndi 16+2 börnum í 6 mánuði.

Stefán Thorarensen. Sóknarmannatal Kálfatjarnar og Njarðvíkur 1865 – 1876.

Gunnar M. MagnússJón Skálholtsrektor. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1959.

Eitthvað af elstu skýrslum um skólann á Vatnsleysuströnd, elsta bréfa- og gjörðabók hans og elsta reikningabók, hefur ekki fundist, en varðveist hefur áðurnefnd fundargerð stofnfundar skólans í nýbyggðu húsnæði hans 12. september 1872 og einnig handskrifuð reglugerð um hann í 30 greinum, sem byggð var á reglugerð skólans sem tók til starfa í Reykjavík 1862. Frá fyrstu áratugunum eru til greinar í blöðum sem hægt er að lesa á timarit.is, sjá dæmi hér ofar. Hægt er að lesa á netinu nöfn nemenda og einkunnir fyrstu starfsár skólans, í sóknarmannatali Kálfatjarnar og Njarðvíkur 1865-1876 eftir sr. Stefán Thorarensen. Til er samfelld Gjörðabók skólanefndar 1907 – 1969, reikninga- og sjóðsbækur 1907-1936, dagbækur skólans frá 1917-1932, prófabók 1914-1932 o.fl. Vitað er hverjir kenndu og stýrðu skólanum öll 150 ár hans. Í dagbókunum og prófabókinni eru birt nöfn nemenda þessi ár. Fyrstu öldina var skólaárið 6 mánuðir, frá 1. okt og fram í byrjun apríl, með stuttu jóla- og páskafríi. Hægt er að slá því föstu að skóli hefur starfað samfleytt í Vatnsleysustrandarhreppi / Sveitarfélaginu Vogum frá 1. okt. 1872.