Jákvætt og heilsueflandi samfélag
Jákvætt samfélag snýst fyrst og fremst um að hlúa að íbúum samfélagsins. Þeir þurfa að finna fyrir öryggi, sátt og fullvissu um að hugað sé að velferð þeirra í nærumhverfinu. Það eru fjölmargir samfélagslegir þættir sem hafa mikil áhrif á líf og líðan einstaklinga. Má þar nefna til dæmis húsnæðismál, atvinnuumhverfi, samgöngur- og skipulagsmál, aðstöðu til íþróttaiðkunar og útivistar, menntun og forvarnir svo eitthvað sé nefnt.
Undanfarin misseri hef ég lagt stund á nám í jákvæðri sálfræði. Sú fræðigrein snýst um að rannsaka það sem er í góðu lagi í stað þess að einblína á vandamál. Leitast er við að svara spurningum eins og hvað er það sem einkennir þá sem eru hamingjusamir og hvernig er almennt hægt að auka sátt og vellíðan fólks. Sjónum er beint að jákvæðri nálgun.
Að mínu mati á jákvæð nálgun að vera í fyrirrúmi í öllum málaflokkum, sem miðar að því að beina sjónum að því sem er í góðu lagi og horfa með lausnamiðuðu hugarfari á það sem betur má fara og vinna í sátt og samvinnu við íbúa.
Í þessu samhengi snýst jákvæðni ekki um viðhorf eða einhver innantóm Pollýönnufræði. Í jákvæðu samfélagi er vellíðan íbúa í fyrirrúmi. Vellíðan hefur að geyma fjölmarga undirþætti eins og hamingju, helgun, lífsánægju, tilgang, þrautseigju, sjálfstraust og bjartsýni. Jákvæð samskipti snúast meðal annars um að sýna fólki virðingu. Jákvæð menntun snýst um að nemendur þekki styrkleika sína og fái að nýta þá til að njóta sín í námi.
Það skiptir einnig miklu máli að hlúa vel að líkamlegri og andlegri heilsu íbúa. Heilsueflandi samfélag miðar að því að hafa áhrif á lífsstíl fólks og skapa umhverfi sem styður fólk til þess að lifa heilsusamlegu lífi. Hugtakið felur einnig í sér að efla heilbrigði með því að skapa fólki aðstæður sem gera einstaklingum og samfélaginu kleift að auka hreysti og efla vitund og vilja til að viðhalda heilbrigði. Það skiptir til dæmis máli að stuðlað sé að heilbrigðum lífsstíl í skólum og tómstundastarfi. Einnig þarf aðstaða til íþróttaiðkunar að vera góð fyrir ólíka hópa og hægt að stuðla að fræðslu, forvörnum og hvatningu fyrir íbúa á öllum aldri. Við á J-listanum viljum að nýtt sameinað sveitarfélag verði heilsueflandi samfélag og að jákvæð nálgun einkenni vinnubrögð í bæjarstjórn.
Laufey Erlendsdóttir,
skipar 2. sæti á J-lista Jákvæðs samfélags í Garði og Sandgerði.