Ilmandi blómaengi innanbæjar
Það er fátt yndislegra en ilmandi blóm. Sérstaklega er ánægjulegt að njóta þeirra innanbæjar, t.d. á grasflötum við götur. Sum blómstra í júní, t.d. hrafnaklukkur og túnfíflar. Önnur í júlí, t.d. baldursbrá, hvítsmári og gulmaðra. Önnur í ágúst, svo sem skarifífill og augnfró. Í september blómstrar t.d. beitilyng.
Þessi villiblóm sjá algjörlega um sig sjálf og kosta ekkert. Það kemur sér vel á tímum sparnaðar. Eftir að hætt var að beita búfé innanbæjar eru menn með sláttuvélar helsti ógnvaldar þessara blóma. Oft fá þau ekki að vera í friði. Þó er ástandið víða betra í ár en undanfarið, þökk sé blessaðri kreppunni. Bæjarfélögin hafa neyðst til að fækka slátturvélaorustunum við blómin og blessuð grösin. Blómin njóta góðs af þeim sparnaði – og líka við aðdáendur villtra blóma. Einmitt vega þessa sparnaðar hefur fleira fólk veitt þessum vinalegu villiblómum athygli og ég hef heyrt fólk fagna því að nú sé minna slegið í Reykjavíkurborg.
Myndirnar hér eru allar teknar í Vogum. Tvær þær fystu sýna hvíta hrafnaklukku sem breiddi úr sér í lok júní einmitt þar sem ekið er inn í þéttbýlið Voga. Hún fékk að vera í friði uns blómgun hennar lauk. Þriðja myndin er af baldursbá sem var svo flott við sjóvarnargðinn í fyrra en var fjarlægð nokkrum dögum síðar. Hinar myndirnar voru teknar 24. júlí sl. við Kirkjuholt og sýna hvítsmára í samfélagi við önnur blóm svo sem gulmöðru, blóðberg og garðamaríustakk. Sá síðastnefndi er reyndar garðaplanta, en hefur sáð sér þarna sjálfur. Tveimur dögum eftir að ég tók síðustu myndirnar var búið að slá meirihluta blómanna. Í staðinn var komin einlit græn grasflöt.
Nú vil ég biðja bæjaryfirvöld og bæjarstarfsfólk í Vogum - og annars staðar - að hugleiða hvar og hvenær slátturvélunum er beitt – og til hvers. Við ættum að vinna sem mest með náttúrunni og þyggja með þökkum þegar hún útbýr sjálf fyrir okkur fínustu blómagarða. Förum ekki í stríð við hana af óþörfu.
Virðingarfyllst.
Þorvaldur Örn Árnnason, íbúi í Vogum.