Gönguleiðin að Keili lagfærð
N.k. laugardag 24. ágúst munu Sjálfboðaliðasamtaök um náttúruvernd gangast fyrir því að lagfæra gönguleiðina að Keili og leitast við að stöðva gróðureyðingu sem þar á sér stað.
Mæting kl. 9:30 við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Vatnsleysustrandarvegar. Þar má skilja eftir fólksbíla og safnast í jeppa, en vegurinn þaðan er vondur. Verðum svo kl. 10 við Oddafell, þar sem gönguleiðin að Keili byrjar. Takið með vinnuföt eftir veðri - ekki gleyma vinnuvettlingum - og nesti til dagsins. Náttúruskoðun innifalin! Óskað er eftir vinnufúsum höndum.
Skráning hjá [email protected] eða í s. 895 6841.
Flestir sem ganga á Keili aka frá Reykjanesbraut eftir ósléttum og grýttum Höskuldavallavegi að bílastæði við norðurenda Oddafells ogi leggja bílum sínum.
Gönguleiðin liggur þaðan meðfram Oddafelli þar til hún þverar mosavaxna apalhrauntungu á u.þ.b 150 m kafla. Þar er erfitt að ganga og mikil náttúrueyðilegging, sjá myndir. Fólk kýs að ganga á mjúkum mosanum sem drepst við það og verður að mold sem fýkur burt eða hrynur niður í holur í hrauninu. Þá verður eftir bert og úfið hraungrýtið sem er lítt fýsilegt að ganga á svo menn færa sig utar og utar. Þannig breikkar gatan og er allt að 12 m. breið þarna og margskipt á köflum. Eftir að yfir þessa ófæru er komið tekur við greið gata alla leið að Keili og er röskir 2 km á lengd. Víða er hún mjó og án neinna gróðurskemmda en greinist þó á stöku stað og er á kafla allt of breið vegna þess að menn kjósa mosann og drepa hann um leið.
Oddafell er gríðarlangt, mjótt og lágt fjall. Fyrsti hluti leiðarinnar sem er vestan undir því er eftir grasflöt með blómgróðri og lætur hún nokkuð á sjá þannig að víða skín í mold. Við veltum því fyrir okkur hvort hægt væri með stikum að fá fólk til að ganga eftir Oddafellinu (á að giska 20 m hækkun) í stað þess að ganga meðfram því. Að athuguðu máli leist okkur ekki á það því þó útsýnið sé flott af hryggnum er gönguleiðin til hliðar að flestu leyti huggulegri. Þar mætti hugsanlega skyrkja gróðurinn með fosfórríkum áburði svo hann þoli betur traðkið.
Í könnunarleiðangri í fyrra höfðum við meðferðis járnkall, skóflu og litla sleggju og notuðum þessi tól til að kanna hvað hægt væri að gera á vonda kaflanum yfir apalhraunið. Við gerðum prufur og komumst að því að það væri vinnandi vegur að gera á þessu raskaða svæði hæfilega breiða götu, sem væri það auðveld að ganga að fólk færi hana frekar en að troða mosann. Efnið mætti að langmestu leyti taka úr raskaða svæðinu og myndi það ekki raskast mikið meira við það og síðan vonandi gróa upp í tímans ráðs eftir að átroðningi linnir. Grjótið þarna er létt og gjallkennt og töluvert um flatar frauðkenndar hraunhellur. Helst gæti skort smærri steina og þá má að ósekju taka úr Oddafellinu og bera í góðum handbörum eða hjólbörum.
Áður en til slíkra framkvæmda kemur er mikilvægt að velja af kostgæfin bestu leiðina yfir þetta raskaða hraun og merkja. Kantana mætti afmarka með grjóti sem ekki nýtist í sjálfan stíginn. Vonandi yrðu þessar úrbætur nóg til að beina þorra göngufólks á stíginn. Hugsanlega mætti reyna að loka þessari leið með öllu og beina göngufólki á eldri götu nokkru innar.
Það er forgangsmál að lagfæra þennan illa farna hluta leiðarinnar. Einnig væri gott að tína grjót úr götunni alla leið að Keili og pikka upp með járnkalli stöku steina, sem standa út í götuna og gera hana torfærari. Þar sem gatan greinist þarf að velja bestu leiðina og gera hinar fráhrindandi með því að henda þar lausu grjóti.
Æskilegt væri að stika alla leiðina frá bílastæðinu að Keili. Hugsanlega geta Ferðamálasamtök Suðurnesja lagt til appelsínugular stikur eins og þær sem notaðar hafa verið á mörgum gönguleiðum hér á Suðurnesjum. Ein stík stika er við upphaf leiðarinnar við Oddafell en það er ekki nóg.
Niðurstaða okkar í Sjálfboðaliðasamtökunum er sú að það sé vel hægt að bæta göngugötuna að Keili og draga um leið úr gróðurskemmdum. Það sem til þarf er margar hendur og góð verkstjórn. Nokkrir félagar í Sjálfboðaliðasamtökunum hafa reynslu af svipuðum verkefnum.
Sjá nánar á myndum á facebook.
f.h. Sjálfboðáliðasamtaka um náttúruvernd.
Þorvaldur Örn Árnason