Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gegn einelti alla daga ársins
Mánudagur 14. nóvember 2011 kl. 12:23

Gegn einelti alla daga ársins

Þann 8. nóvember var sérstakur dagur gegn einelti. Margir skólar og fleiri munu eflaust nota þennan dag til að ræða eineltismálin. Allt er í sjálfu sér gott að segja um þetta. Rétt er að hafa í huga að ekki er nægjanlegt að gera mikið mál úr eineltismálunum einn dag ársins. Baráttan gegn einelti þarf að vera alla daga. Mikil umræða hefur átt sér stað hérna í Garðinum hvað varðar einelti í Gerðaskóla og fullyrt að fjölskyldur hafi hreinlega flutt brott vegna þess að ekki hafi verið tekið nægjanlega á málum. Þetta er grafalvarlegt mál. Auðvitað er það ekki nóg að hafa flottar áætlanir á blaði ef svo er lítið unnið í málunum. Auðvitað er það samt spurning hvort sú fullyrðing er rétt. Ég á erfitt með að trúa því að stjórnendur skóla vinni ekki eins mikið og mögulegt er til að koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir einelti innan eða utan skóla. Sé það rétt að stjórnendur skóla taki ekki á þessum málum er það mjög alvarlegt, sem íbúar geta ekki sætt sig við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fyrir nokkrum árum tóku foreldrar sig til og hófu foreldrarölt á kvöldin vegna þess að börn og unglingar voru með ólæti á kvöldin á götum bæjarins. Þetta framtak forleldra á sínum tíma skilaði gífurlega jákvæðum árangri. Eigi að nást verulegur árangur í baráttunni gegn einelti verða allir að taka höndum saman, forledrar, nemendur, skólinn og bæjaryfirvöld.


Að leggja einhvern eða einhverja í einelti er alveg skelfilegt, hvort sem í hlut eiga börn, unglingar eða fullorðnir. Það er ástand sem samfélagið getur ekki liðið.


Hér í Garði hefur á undanförnum árum verið unnið að því að skapa glæsilega aðstöðu í skólanum, sem kostað hefur gífurlegar upphæðir. Það er ekki nóg að hafa flottar byggingar, skjávarpa og önnur kennslutæki ef innra starfið gengur ekki sem skyldi.


Kastljósinu hefur verið beint að eineltismálum og að árangur skólans sé ekki nógu góður. Við verðum að gæta okkar að draga ekki upp allt of neikvæða mynd af skólanum okkar. Ég gæti bent á að margir nemendur úr Gerðaskóla hafa náð frábærum árangri, sem vakið hefur athygli. Það má líka benda á þá þætti. Auðvitað er það aðlatriðið að nemendum og íbúum almennt líði vel í samfélaginu. Við eigum ekki eingöngu að horfa á árangur í samæmdum prófum. Það geta margir þættir spilað inní hvers vegna misjafn árangur næst í skólum. Það er nú svo að fólk er misjafnlega hæft til að stunda bóklegt nám. Okkar þjóð þarf ekki eingöngu á einstaklingum að halda sem hafa háskólapróf. Því miður er alltof lítil áhersla lögð á verklega námið. Aðalatriðið er að einstaklingsmiðað nám séu ekki eingöngu orðin tóm. Það þarf að ná til nemanda og finna hvað hentar hverjum og einum.


Aðalatriðið í skólastarfi er að nemendum líði vel og hafi ánægju af því að vera í skólanum. Nemendur og starfsfólk þurfa að hlakka dag hvern til að mæta í skólann sinn. Hlutverk sveitarstjórnar er að skapa gott starfsumhverfi fyrir nemendur, starfsfólk og stjórnendur.


Efla þarf eins og mögulegt er samstarf við foreldra. Skólinn á að leggja áherslu á slíkt samstarf. Ábyrgð foreldra er einnig mikil að nemendur finni fyrirjákvæðri umræðu og að tilgangur umræðunnar sé bæta skólastarfið en ekki að rífa það niður.


Öll aðstaða er fyrir hendi hér í Gerðaskóla til að nemendu þar geti liðið vel og ef hver nemandi reynir að gera sitt besta og starfsfólk skólans, forledrar og bæjaryfirvöld þá geta allir verið sáttir.


Það þarf að fara fram umræða í bæjarfélaginu um þessi mál af yfirvegum án þess að íbúar og ráðamenn láti fara frá sér allt of stórar og harðorðar yfirlýsingar. Það á að vera markmið okkar allra að taka höndum saman og berjast gegn einelti alla daga ársins.


Við verðum að finna skynsamlega leið til að kveða þennan draug niður án upphrópana og æsings. Við viljum öll að Gerðaskóli sé fyrirmyndarskóli. Skólinn hefur alla burði til þess ef við tökum sameiginlega á málunum.


Sigurður Jónsson
fv. bæjarstjóri.