Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ertu skólaforeldri í góðum gír?
Mánudagur 13. febrúar 2012 kl. 08:17

Ertu skólaforeldri í góðum gír?



Skólaforeldrar geta gert gæfumun í velferð og árangri barna sinna í skólanum. Kennararnir eru faglegir ráðgjafar en þú ert sérfræðingurinn í þínu barni og getur lagt margt gott til málanna. Þú getur haft svo mikil áhrif að það gæti skipt sköpum fyrir menntunarmöguleika barnsins í framtíðinni.
Í þessari grein ætla ég að hugleiða: „Hvað stendur foreldrum til boða til að vera virkt skólaforeldri á meðan börnin eru í grunnskóla og jafnvel lengur?“


1. Fylgstu með hvenær samskiptadagar eru í skólanum, stundum kallaðir viðtalsdagar eða foreldradagar. Þá daga er foreldrum boðið, yfirleitt með nemandanum, til viðtals við umsjónarkennara og farið yfir námsárangur, hegðun og ef við á sértæka námsörðguleika. Foreldrar ættu að undirbúa sig fyrir viðtalið og jafnvel skrá hjá sér ábendingar kennarans og það sem ákveðið er að leggja áherslu á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


2. Kynntu þér stefnu skólans í foreldrasamstarfi. Athugaðu hvort þú sért velkomin á ákveðnum tímum? Athugaðu hver er formaður foreldrafélagsins og kynntu þér starfsáætlun þess og taktu þátt í því sem foreldrafélagið óskar eftir að þú takir þátt í ef þú mögulega getur. Kynntu þér hvort umsjónarkennarinn óski eftir aðstoð frá foreldrum varðandi; vettvangsferðir, bekkjarkvöld, eineltismál, agamál og starfskynningar svo eitthvað sé nefnt.


3. Foreldrafélag hvers skóla er nú lögbundinn vettvangur skólaforeldra sem ýmist styður fjárhagslega við skólastarfið eða ályktar um ýmis mál sem snúa að nemendum. Foreldrasamstarf getur verið gefandi og hefur jákvæð áhrif á skólabraginn. Foreldrar eru helstu gagnrýnendur skólans en jafnframt bestu stuðningsmenn. Að vera í foreldrafélagi er eins og að vera í vinnuteymi á góðum vinnustað. Það er gefandi að starfa í foreldrafélaginu þó maður sé ekki endilega í stjórn þess. Það eru allir foreldrar sjálfkrafa í foreldrafélaginu. Kynntu þér málið.


4. Foreldraráðgjöf: FFGÍR veitir foreldrum ráðgjöf og er fyllsta trúnaði heitið. Það er oft gott að ræða málin við hlutlausan aðila í stað þess að þegja og láta eins og málin leysist af sjálfu sér. Foreldrar eru oft ekki vissir hvort þeir hafi óþarfa áhyggjur eða hvort þeir ættu að hafa áhyggjur. Fagfólk í skólunum er yfirleitt tilbúið að taka á móti foreldrum til að ræða málin og kennarar eru t.d. með fasta viðtalstíma sem ætlaðir eru í umræður og upplýsingagjöf.


5. Í hverju bæjarfélagi er skólamáanefnd eða fræðsluráð. Við hvern skóla er skólaráð og allstaðar vilja allir gera skólastarfið betra. Foreldrar þurfa að vita fyrir skólastarfið stendur og þekkja til hvers er ætlast af þeim. Hvernig er skólastefnan og hvernig er skólabragurinn? Er nemendum tryggt öruggt og námsvænlegt umhverfi? Hvað get ég sem foreldri gert fyrir skólann annað en að bera virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið?


6. Ef foreldrar hafa athugasemdir eða ábendingar er ávallt best að hafa samband fyrst við viðkomandi kennara eða skólastjóra síðan skal leitað eftir stuðningi foreldrafélags eða fræðsluskrifstofu.

Í Reykjanesbæ starfa regnhlífasamstök foreldrafélaga grunnskólanna, FFGÍR. FFGÍR lætur sig málin varða sem snúa að grunnskólanemendum og foreldrum þeirra á Suðurnesjum.

Í vetur höfum við fylgst grannt með skólamálunum og tekið virkan þátt i skólaumræðunni, alltaf á tánum. Fulltrúar FFGÍR taka þátt í fundum Fræðsluráðs Reykjanesbæjar, Samtakahópnum, Suðurnesjavaktinni, Fulltrúaráði heimilis og skóla svo eitthvað sé nefnt. Fulltrúar FFGÍR eru áhugasamt fólk um þróun skólamála og samstarf heimilis og skóla.

Við hvetjum þig til þátttöku í skólastarfi ef þess er óskað, ábendingar um hugmyndir eru vel þegnar.

Gangi ykkur vel

Ingigerður Sæmundsdóttir, verkefnastjóri FFGÍR


Viðtalstímar alla virka daga kl.16:00-17:00 í síma 868-4495 eða senda fyrirspurn á netfangið [email protected].