Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Eiturblandan frá Helguvík
  • Eiturblandan frá Helguvík
    Ellert Grétarsson, íbúi í Reykjanesbæ.
Mánudagur 21. ágúst 2017 kl. 14:10

Eiturblandan frá Helguvík

- Ellert Grétarsson skrifar

Andstyggileg  brunastækjan frá umhverfishrottunum í Helguvík hefur legið nánast samfleytt alla vikuna yfir norðurbyggðum Reykjanesbæjar með vel þekktum áhrifum á íbúana – dag eftir dag. Umhverfisstofnun gerir ekkert til að hindra þetta.

Ég veit ekki hvar þessir viðvaningar keyptu þennan ofn, sem  alltaf er að bila.  Þeir segja hann koma frá Ítalíu. Ég held, svei mér þá, að  þeir hafi pantað hann á Aliexpress.  Þeir hafa ætlað að sleppa ódýrt og keypt eitthvað bölvað drasl.  Allavega væri ég fyrir löngu síðan búinn að slökkva á draslinu og farinn í massíf málaferli við framleiðanda ofnsins,  fengi ég svona rándýra en gallaða vöru í hendurnar.

Í níu mánuði hafa umhverfishrottarnir í Helguvík komist upp með að ryðjast inn á heimili okkar með bölvaðan brunafnykinn, æ ofan í æ. Ákvæði reglugerða um loftgæði  og starfsleyfi hafa aldrei verið uppfyllt. Samt halda þeir starfsleyfinu endalaust. Og nú segjast þeir vera með lista yfir úrbætur sem taka muni vikur og mánuði að framkvæma.  Halló, þeir eru búnir að hafa NÍU mánuði til að koma þessu drasli í lag. Níu mánuði!

Það er alveg klárt mál að ef Kleinugerð Gunnu eða Pizzustaður Pedró´s myndi valda lyktarmengun í íbúðahverfi, þá yrði þeim lokað í hvelli ef viðeigandi úrbætur yrðu ekki gerðar. Hér er hins vegar ekki um að ræða einhver smápeð sem auðvelt er að pönkast í. Nei, við erum að tala um lífeyrissjóðina og Arion banka, sem hafa dælt miklum fjármunum í algjörlega glórulaust drasl. Er ekki frábært að borga í lífeyrissjóð sem síðan notar peningana þína í að menga fyrir þér?

Þetta dæmalausa verksmiðjudrasl hefur verið keyrt áfram undir verndarvæng Umhverfisstofnunar, þrátt fyrir að hafa aldrei getað uppfyllt ákvæði þeirra reglugerða sem starfsleyfið byggir á – starfsleyfi, sem byggðist á fölsuðu umhverfismati.  Umhverfismati sem ekkert mark var takandi á, eins og komið hefur á daginn. Þessi verksmiðja er svo meingölluð að hún er algjörlega óstarfhæf. Samt gerir Umhverfisstofnun ekkert og fer undan í flæmingi þegar hún er krafin svara, samanber opna bréfið sem ég skrifaði henni í síðustu viku. Langt er síðan bæjarbúar fengu sig fullsadda og í síðustu viku virtust bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ loksins missa endanlega þolinmæðina gagnvart fyrirtækinu.

Umhverfisstofnun aðhefst hins vegar ekkert og íbúar mega áfram þola mengunina.  Það þurfa nefnilega að fara fram einhverjar mælingar sem endalaust er beðið niðurstaðna úr. Umhverfisstofnun og United Silicon geta hins vegar troðið þessum mælingum þangað sem sólin aldrei skín. Halda þessir aðilar virkilega að þeir njóti almenns trausts eins og þeir hafa komið fram við bæjarbúa? Halda þeir að einhver muni taka mark á mælingum frá þeim?  Nei, einu mælitækin, sem mark er takandi á,  eru íbúarnir sjálfir – hvað þeir upplifa og finna á eigin skinni.

Þetta ástarsamband United Silicon og Umhverfisstofnunar er í meira lagi undarlegt. Það hlýtur að vera rannsóknarefni. Getur kannski verið að hér hafi spottatoganir átt sér stað á bak við tjöldin, þar sem pólitík og peningalegir hagsmunir koma við sögu? Pólitík og viðskipti er nefnilega eiturblanda- og við öndum henni að okkur með brunalyktinni frá Helguvík.

Ellert Grétarsson, íbúi í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024