Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Andlát Sparisjóðsins í Keflavík
Fimmtudagur 13. janúar 2011 kl. 10:58

Andlát Sparisjóðsins í Keflavík

103 ára sögu Sparisjóðsins er nú lokið með gjaldþroti.
Tap Sparisjóðsins árið 2008 var 17,0 milljarðar. Eftir það hafa engar staðfestar upplýsingar um reksturinn verið birtar opinberlega.
Sbr. vef Víkurfrétta varð tapið 2009 svipað eða 17,0 milljarðar.
Tapið 2010 er leyndarmál, en gæti verið enn meira. Tapið sl. þrjú ár er e.t.v. yfir 50,0 milljarðar. Langstærsta gjaldþrot frá upphafi byggðar á Suðurnesjum.
Á fundi 400 stofnfjáreigenda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 21. okt. sl. kom fram að 1.659 stofnfjáreigendur hefðu tapað um 13,0 milljörðum. Þeir sem töpuðu mestu voru Kaupfélag Suðurnesja og Festi lífeyrissjóður, 1,5 milljarði hvort félag.
Þetta er tilfinnanlegt tjón stofnfjáreigenda sem voru flestir úr röðum bestu viðskiptavina sjóðsins. Margir starfsmenn töpuðu sinni stofnfjáreign. Fjölmargir stofnfjáreigendur skulda enn mikið af síðustu stofnfjáraukningu og telja að ekki hafi verið rétt sagt frá af stjórn sparisjóðsins og áhættan verið meiri en sagt var í upphafi.


„Verðum að fara út af örkinni og sækja á gjöful mið“ .
Þetta var fyrirsögn undir mynd af Geirmundi Kristinssyni í viðtali við Víkurfréttir 5. jan. 2008. Þetta sýnir allt sem segja þarf. Suðurnesjasvæðið var ekki nógu stórt fyrir útrásarhugmyndir sparisjóðsstjórans.
Það kom fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga fjármálafyrirtækja árið 2007 að aðeins tveir af 18 sparisjóðum höfðu jákvæða afkomu af kjarnastarfsemi. Flestir sem til þekkja álíta að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi verið rekinn með tapi af grunnstarfi sl. 10 ár. Hagnaðurinn hefur allur komið frá annarri starfsemi, gengishagnaði vegna hlutabréfa í Exista.


Mbl. segir 21. sept. 2009 að Exista sjóðirnir hefðu allir tapað af grunnstarfsemi sinni.
Pétur Blöndal getur þess í Mbl. 16. okt. 2010 hvernig Exista og Kaupþing störfuðu. Dæmi tekið úr bókum Exista 2008:
Eigendur Exista og Kaupþings sem voru þeir sömu ákváðu eftirfarandi á tilteknum degi:
„Exista kaupir í Kaupþingi fyrir 40,0 milljarða og Kaupþing í Exista fyrir sömu upphæð.
Engir peningar voru notaðir aðeins skipst á pappírum. Þar með höfðu þeir bætt efnahag hvors um sig um 40,0 milljarða.
Næsta stig var að fá nýtt lánshæfismat sem hafði áhrif á efnahaginn. Lokastigið var svo að greiða hluthöfum arð vegna góðrar afkomu“.
Þess nutu Exista sparisjóðirnir.
Arðurinn frá Exista var lifibrauð Sparisjóðsins í Keflavík mörg undanfarin ár svo og annarra Exista sparisjóða.
Hagnaðurinn var aldrei til – allt var byggt á sýndarmennsku – því fór sem fór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjórnendur sparisjóðanna greiddu sér laun í samræmi við ofangreint dæmi.
Þeir voru einnig í öllum stjórnum dótturfyrirtækja sjóðanna svo og Existu og Kistu, þar voru greidd alvöru stjórnarlaun.
Sparisjóðsstjórar stærstu sparisjóðanna höfðu á þessum tíma 3 – 5 milljónir á mánuði og starfslok og eftirlaun tóku mið af þeim launum.
Á forsíðu Viðskiptablaðsins 29. apríl 2010 segir „Dýr starfslok hjá gjaldþrota sjóði“.
Skrýtið að stjórn Sparisjóðsins í Keflavík skildi gera að fullu upp við sparisjóðsstjórann í miðju gjaldþroti sjóðsins.


Jórunn Tómasdóttir í Víkurfréttum 10. maí 2010:
„Það hlýtur að vera augljóst að misfarið hefur verið með fé almennings. Sér hagsmunir hljóta að hafa verið teknir fram yfir almannahagsmuni. Það er nokkuð augljóst að stjórnendur Sparisjóðsins í Keflavík hafa verið uppteknari við að blása kúlur og hræra froðu en virða upprunalega hugmyndafræði“.
„Þeim var falin mikil ábyrgð, sem þeir kunnu ekki með að fara – þeir brutu fjöreggið“.

Allir Suðurnesjamenn eru orðnir óþreyjufullir. Þeir bíða og vona að fram fari sérstök rannsókn á innra starfi og hruni Sparisjóðsins. Allir vilja vita hvernig þetta gat eiginlega gerst.
Hvernig getur það verið að Sparisjóðurinn sem árlega gumaði af svo feiknagóðri afkomu og blómlegu búi sé hruninn með tugi milljarða í skuld. Vonandi verður stungið á kúlur og froðan skafin af.

Nú er SpKef ríkissparisjóður með lítil tengsl við samfélagið sem hann starfar í.
Engir heimamenn í stjórn.
Engar upplýsingar um reksturinn hafa verið birtar sl. tvö ár.
Lánastarfsemi sjóðsins er öll í molum.
Traust milli samfélagsins og Sparisjóðsins er ekki í lagi.
Núverandi stjórnendur SpKef verða að upplýsa heimamenn og svara mörgum spurningum 1.659 stofnfjáreigenda og þúsundum viðskiptavina sjóðsins sem lengst af hafa verið helstu málsvarar Sparisjóðsins, en hvað verður það lengi?
Ég óska Sparisjóðnum og starfsfólki velfarnaðar í erfiðri stöðu. Þá vil ég og óska þess að samstarf sparisjóðanna verði endurreist.

Páll Jónsson,
fv. Sparisjóðsstjóri 1974 – 1998.