Alþjóðadagur læsis 8. september 2010
Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september degi málefnum læsis. Fjöldi stofnana á Íslandi, m.a. skólar og bókasöfn minnast þessa dags með ýmiskonar viðburðum. Í bókasafni Reykjanesbæjar verður uppskeruhátíð sumarlesturs barna á næstu dögum, (sjá auglýsingu í Víkurfréttum á morgun) og í meðfylgjandi grein vekjum við athygli á lestri sem hollri tómstundaiðju.
Haustferðalag með lestri - bókasafnið, lesandinn og lestrarleiðir
Nú er sumarið liðið og sumarfríin með tilheyrandi ferðalögum að taka enda. Þá er tími til huga að lestri góðra bóka í rökkri um haustdaga og hér koma nokkrar tillögur um lestrarefni. Bókaunnendur þræða oft óvæntar lestrarslóðir og innifalin eru jafnvel ferðalög um framandi slóðir. Við lestur á áhugaverðri nýrri ferðabók um Færeyjar eftir Huldar Breiðfjörð, Færeyskur dansur, er ekki ólíklegt að lesandinn næli sér í skáldsögur eftir færeyska höfunda til að halda ferðalaginu áfram, eins og t.d. hinn sígilda William Heinesen eða spennusagnahöfundinn Jógvan Isaksen.
S.l. bókajól höfðu enn í farteskinu nokkrar skáldsögur sem gerast í síðari heimsstryjöldinni. Þetta tímabil í sögunni vekur alltaf upp spurningar, sem óteljandi bækur reyna að svara. Ein er skáldsagan Dóttir mæðra minna eftir Sindra Freyson og er framhald af bók hans Flóttinn sem kom út 2006 en seinni bókin fjallar um íbúa á Ísafirði sem eru handteknir og fluttir til Bretlands eftir að hafa aðstoðað Þjóðverja nokkurn sem var á flótta á Vestfjörðum. Skáldsögurnar eru margar og ólíkar frá þessum tímum og ofarlega er í huga er sagan Friðþæging eftir breska rithöfundinn Ian McEwan. Önnur ný bók, mjög áhugaverð og skemmtileg segir frá lífi íbúa Guernsey í Ermasundi, sem var hernumin af Þjóðverjum á þessum tíma. Bókin heitir Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer & Annie Barrows. Bókin sem mesta athygli vakti þetta árið var skáldsagan Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson og fjallar um örlög íslenskrar konu og eiginmanns hennar af þýskum gyðingaættum á þessum örlagatímum.
Böðvar Guðmundsson er góður rithöfundur og afar vinsæll. Líklegt er að lesandi leiti að fleiri verkum hans eftir lestur áðurnefndrar bókar t.d. bækurnar um Vesturfarana, Híbýli vindanna og Lífsins tré. Við lestur þeirra getur lesandinn í framhaldi fundið mikið efni í formi ævisagna og sagnfræði um þá undarlegu atburði í íslenskri sögu þegar stór hluti þjóðarinnar fluttist í burtu. Hver var ástæðan? Eða voru margar ástæður?
Um annars konar og raunverulegri ferðalög, sprottin af bókmenntum eru t.d. hinar sívinsælu hópferðir á Njáluslóðir og á slóðir annarra Íslendinga sagna, - ferðir aðdáenda skáldkonunnar Jane Austen á söguslóðir skáldsagnapersóna hennar og ferðir aðdáenda Dans Brown á sögulóðir hans, listasöfn og frægar kirkjur víða um lönd.
Unnendur bóklesturs geta kannað fjölbreyttar lestrarleiðir á heimasíðu safnsins www.reykjanesbaer.is/bokasafn, t.d. undir titlinum Lesandinn, þar sem ýmsir viðskiptavinir safnsins skrifa um lestur sinn. Einnig eru í handbókadeild safnsins nokkrar bækur um lestrarleiðir s.s. Novel destination, Bloomsbury good reading guide og A passion for books.
Löngum hafa bókasöfn starfað með því markmiði að til sé lesandi fyrir hverja bók og bók fyrir sérhvern lesanda. Starfsfólk bókasafna þreytist því seint á að vekja athygli á lestri sem hollri tómstundaiðju. Í borgarbókasafni eins af vinabæjum Reykjanesbæjar, stórborginni Orlando, sem undirrituð heimsótti nýlega var sláandi einkunnarorð um allt þetta stóra safn: „Readers are leaders“. Íslensk almenningsbókasöfn eiga sér nú einkunnarorð sem vonandi ná athygli sem flestra: Bókasafn, heilsulind hugans.
Ragnhildur Árnadóttir, bókasafnsfræðingur
Bókasafni Reykjanesbæjar.