Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af hverju þessi viðsnúningur?
Miðvikudagur 6. júní 2012 kl. 09:52

Af hverju þessi viðsnúningur?




Öll sveitarfélögin sem eru eigendur að Eignarhaldsfélaginu Fasteign samþykktu grunn að breyttum samþykktum félagsins og leigusamningum á hluthafafundi fyrir tveimur vikum. Það er vegna þess að niðurstaðan er mjög jákvæð fyrir sveitarfélögin. Það er líka vegna þess að forsvarsmenn þessara sveitarfélaga hafa fylgst með málinu í tæp tvö ár, frá því að við sveitarfélögin, óskuðum eftir breytingum á samningum við lánastofnanir. Þau vita að með þessum samningum erum við að ná öllum samningsmarkmiðum okkar og gott betur.

Við fulltrúar sveitarfélaganna í Fasteign fengum Lárus Blöndal hæstarréttarlögmann til að leiða þessa samninga sem hafa skilað svo góðri niðurstöðu, sem raun ber vitni. Lárus hefur oft hitt forsvarsmenn allra sveitarfélaganna í Fasteign og forsvarsmenn lánastofnana til að ræða álitamál og skapa hafgfellda niðurstöðu. Þegar megin niðurstöður lágu fyrir fengum við einnig Þröst Sigurðsson rekstrarráðgjafa til að meta áhrif breyttra samninga fyrir hvert og eitt sveitarfélag, bæði áhrif á rekstur og efnahag. Þetta var gert til að fullnægja kröfum 66. greinar sveitarstjórnarlaga sem kalla eftir að mat skuli gert á áhrifum slíkra fjármálasamninga fyrir viðkomandi sveitarfélag. Fullyrðingum Samfylkingarinnar nú um að hvorki lögmaðurinn né fjármálasérfræðingurinn sem við fengum í þetta, séu hlutlausir ráðgjafar okkar, er vísað á bug.

Við sem sitjum fyrir sveitarfélögin í stjórn Fasteignar báðum framkvæmdastjóra að afla ákveðinna upplýsinga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Lögmaður þess svaraði með tölvupósti þar sem hann gerði ákveðnar athugasemdir en ítrekaði að ekki væri sérþekking á þessu sviði hjá sambandinu. Sumar þessar ábendingar sýndu að hann, eins og hann sagði, hafði ekki farið ítarlega í samningana. Við fengum þó álit Juris lögmannsstofu á þeim ábendingum. Einnig hefur komið fram á fundum með eigendum að ef einhver álitamál væru sem þyrfti að fara yfir í vinnuferlinu framundan væri nægur tími til þess. En það er hins vegar alveg skýrt að þessi samskipti leiddu ekki til þess að þörf væri á neinum meiriháttar breytingum á samþykktunum. Starfsmaður sambandsins hafði svo sent þessi samskipti yfir til forsvarsmanna sveitarfélaganna í Fasteign til upplýsinga. Oddviti samfylkingarinnar gerir þessi skrif lögmannsins að stórmáli, sem greinilega eigi að breyta afstöðu Samfylkingarinnar til þessara samninga. Þau gögn höfðu ekki verið lögð fram sem dagskrárgögn í bæjarráð Reykjanesbæjar.

Nú er verið að ganga frá frekari vinnu vegna þessara samninga. Allir aðilar hafa samþykkt ferlið og allir eru á eitt sáttir um niðurstöðuna. Hvað þýða þeir fyrir Reykjanesbæ? Þeir þýða að skuldbindingar af leigu, sem nú eru skráðar sem skuldir, lækka um rúma 3 milljarða kr. Á móti fellur eignarhlutur okkar í Fasteign um rúman 1 milljarð kr. í verði. Samningarnir þýða að leiga sem við greiðum til félagsins lækkar um 50% næstu þrjú ár og um 35-50% eftir það. Bærinn var fyrir með allt innanhússviðhald en tekur nú einnig yfir utanhússviðhald. Það sem við greiðum í leigu, fer beint inn á lækkun lána að baki eignum og lækkar kaupverð eignarinnar samsvarandi. Sérhverja eign getum við leyst til okkar á lánsvirðinu, þegar við viljum.

Fyrst voru Samfylkingarmenn hlynntir þessum samningsdrögum, nú eru þeir á móti. Ómögulegt er að geta í hvað eða hverjir ráða þar för hverju sinni.
Þegar tveir aðilar semja, þurfa báðir að ná saman. Að því hefur verið unnið nú í tvö ár. Málið hefur þroskast vel og þessir breyttu leigusamningar eru sveitarfélögunum mjög hagfelldir.

Árni Sigfússon Bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024