Zeto í Startup Energy Reykjavík
- „Dýrmætt stuðningsnet,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir, frumkvöðull
Nýsköpunarfyrirtækið Zeto tekur þessa dagana þátt í Startup Energy Reykjavík viðskiptahraðlinum. Að sögn Eydísar Mary Jónsdóttur, umhverfisfræðings og frumkvöðuls hjá Zeto, er það mikil viðurkenning að Zeto sé ein þeirra hugmynda sem valin var til þátttöku. Hjá Zeto er unnið að þróun á lífvirkum húð-, hár- og sápuvörum úr þaraþykkni. „Þetta mun án efa hjálpa okkur við fjármögnun fyrirtækisins. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að setja á markað húðvörur og því mikilvægt að vera með sterka bakhjarla. Það er mikill fengur í því fyrir okkur að hafa aðgang að því stuðningsneti sem Startup Reykjavík veitir,“ segir hún. Þarinn sem notaður er í þykknið er lífrænt vottaður og sérunninn hjá Þörungavinnslunni á Reykhólum. Þaraþykknið er búið til á Skagaströnd og vörurnar á Grenivík. Eydís býr í Reykjanesbæ og því má segja að starfsemin teygi sig víða. Aðferðin við að ná þykkninu úr þaranum er einstök og ekki notuð annars staðar í heiminum. Stefnt er sett á að setja fyrstu vörulínu Zeto á markað á næsta ári.
Fyrirtækin sjö sem fá inngöngu í hraðalinn fá 5 milljónir hvert gegn 10 prósenta eignarhlut sem Arion banki, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð og GEORG eignast í sameiningu. Auk þess fá fyrirtækin sameiginlega vinnuaðstöðu og aðstoð fjölda mentora úr atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og orkugeiranum. Hraðlinum lýkur með sérstökum fjárfestadegi þar sem forsvarsmenn fyrirtækjanna kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum.
Startup Energy Reykjavík er á vegum Icelandic Startups sem áður hét Klak Innovit. Hjá Icelandic Startups er haldið utan um íslensku viðskiptahraðlana Startup Reykjavík sem hýsir almenn nýsköpunarfyrirtæki, Startup Energy Reykjavík sem hýsir sprotafyrirtæki í orkugeiranum og Startup Tourism sem er sérstaklega miðaður að ferðaþjónustunni. Viðskiptahraðall (e. business accelerator) er nýtt hugtak á Íslandi og eru þrír hraðlar starfandi, Startup Reykjavík, Startup Tourism og Startup Energy Reykjavík. Hlutverk viðskiptahraðla er að hraða ferlinu sem fyrirtæki fara í gegnum frá því að hugmynd fæðist og þar til viðskipti fara að blómstra. Fyrsti hraðallinn fór af stað sumarið 2012 en Startup Energy Reykjavík bættist í hópinn vorið 2014.
Markmið Startup Energy Reykjavík er að styðja við sjö sprotafyrirtæki í orku- eða orkutengdum greinum og hjálpa þeim að komast eins langt og mögulegt er með sínar viðskiptahugmyndir á tíu vikum. „Tenging Zeto við orkugeirann er sú að þaraþykknið, sem við byggjum vörurnar okkar á, er framleitt með nýrri aðferð, án kemískra efna til að tryggja hreinleika og lífvirkni þykknisins. Í stað efna og ensíma notum við nýja tækni í vélbúnaði og því er orka mjög mikilvæg í okkar grunnframleiðslu,“ segir Eydís.
Að sögn Eydísar er mjög misjafnt hversu langt fyrirtækin eru komin í sinni vinnu áður en þau fá inngöngu í hraðlana. Að baki sumra hugmyndanna er margra ára vinna en önnur eru enn á hugmyndastigi. „Í tilfelli Zeto höfum við verið í vöruhönnun og prófunum í nokkur ár. Við ákváðum svo í nóvember 2015 að stofna um verkefnið fyrirtæki og keyra það í gang.“ Í byrjun árs 2016 tók Zeto þátt í Gullegginu, sem er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups og hlaut þriðju verðlaun fyrir viðskiptaáætlun sína. „Þetta er keppni sem ég mæli hiklaust með fyrir alla með frumkvöðladrauma. Við fengum mikinn stuðning við gerð viðskiptaáætlunarinnar, mótun viðskiptahugmyndarinnar og þjálfun í að koma hugmyndinni á framfæri. Svo það sem skiptir kannski mestu máli var öll sú jákvæða orka og viðurkenning sem við fengum í gegnum þátttökuna og ekki síst tengsl við fólk sem hefur hjálpað okkur áfram á ótal vegu.“
Zeto fékk í sumar þrjá frumkvöðlastyrki; frá Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Átaki til atvinnusköpunar og Fræi Tækniþróunarsjóðs og segir Eydís þá hafa gert þeim kleift að láta efnagreina og geymsluþolsmæla þaraþykknið, gera markaðskönnun og hefja vinnu að vörumerki og útliti Zeto með grafískum hönnuði.