Yfirtaka FME á Sparisjóðabankanum hefur ekki áhrif á þjónustu SpKef
Yfirtaka FME á Sparisjóðabankanum og Spron hefur ekki áhrif á þjónustu í afgreiðslum Sparisjóðsins í Keflavík. Breytingar á daglegum rekstri felast í því að erlend greiðslumiðlun færist yfir til Seðlabankans og vonumst við til að viðskiptavinir verði ekki fyrir neinum áhrifum af þeim aðgerðum, segir í frétt frá Sparisjóðnum í Keflavík á spkef.is.
Í fréttatilkynningu viðskiptaráðuneytisins er sagt að með aðgerðunum hafi styrkum stoðum verið skotið undir áframhaldandi starfsemi sparisjóða. Sparisjóðunum verður þar með gert kleift að taka virkan þátt í endurreisn hagkerfisins.
Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi eru tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.