WOW air formlega orðið flugfélag
Í dag tók WOW air formlega við flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu en um 30 ár eru liðin síðan flugrekstrarleyfi var veitt til handa félagi sem stundar áætlunarflug til og frá Íslandi.
Flugfélagið WOW air fór í jómfrúarflug sitt 31. maí 2012 og ár er síðan félagið tók yfir flugrekstur Iceland Express.
Flugrekstrarleyfi er liður í því að styrkja og byggja upp rekstur WOW air. Flugfélagið lítur á það sem lykilatriði fyrir áframhaldandi vöxt WOW air að fljúga undir eigin flaggi. Það gefur félaginu mun meiri stjórn á öllum rekstri sem er þá ekki háður öðrum flugrekstraraðila.
„Samgöngustofa lýsir ánægju sinni með að nýtt íslenskt flugfélag skuli nú hafa fengið heimild til flugreksturs. Því fylgja ákveðnar skyldur og ábyrgð en einnig virðisauki fyrir íslenskt samfélag í formi ýmissa starfa tengdum flugrekstrinum. Samgöngustofa óskar nýjum rekstraraðilum góðs gengis í starfseminni og vonast eftir góðu og gifturíku samstarfi“ segir Hermann Guðjónsson forstjóri Samgöngustofu.
WOW air er nú orðið flugfélag og því fylgir bæði mun meiri ábyrgð en jafnframt tækifæri.
Starfsemi WOW air hefur tvöfaldast síðan síðastliðið sumar og frá með næsta mánuði mun fast- og lausráðið starfsfólk nema um 170 manns. Félagið auglýsti eftir flugmönnum fyrir hálfum mánuði og bárust um 270 umsóknir. WOW air hefur nú þegar ráðið 9 flugmenn og fleiri munu bætast í hópinn á næstu mánuðum. Nú munu flugmenn félagsins verða starfsmenn WOW air með komu flugrekstrarleyfisins.
Félagið hefur stækkað jafnt og þétt frá fyrsta flugi þess í maí 2012 en það ár flaug félagið með um 90 þúsund farþega, núna í ár verður farþegafjöldi um 450 þúsund og stefnt er að á næsta ári að félagið fljúgi með yfir 700 þúsund farþega. Vöxtur WOW air hefur verið mikill en fyrsta sumarið rak félagið tvær vélar en næsta sumar mun flugfélagið reka fimm vélar. Um er að ræða nýjustu þoturnar sem notaðar eru í áætlunarflugi til og frá Íslandi af íslensku flugfélagi. Nýju Airbus A320 vélarnar eru mun sparneytnari en eldri vélar og jafnframt menga þær umtalsvert minna. Hvort tveggja styður við stefnu WOW air um að geta ávallt boðið hagstæðustu verðin til og frá Íslandi sem og að láta gott af sér leiða.
Fyrsta flugið undir merkjum WOW air, TF-WOW mun fara til Kaupmannahafnar kl. 7 í fyrramálið, miðvikudaginn 30. október.
„Afhending flugreksrarleyfisins eru tímamót í flugsögu Íslands. Ég er stoltur af þessum áfanga sem er hornsteinn í áframhaldandi vexti flugfélagsins. En ég er fyrst og fremst þakklátur öllu því kraftmikla fólki sem starfar hjá WOW air og hefur gert WOW að veruleika. Einnig er ég þakklátur fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá íslensku þjóðinni frá fyrsta degi“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air
WOW air hyggst fljúga til 17 áfangastaða bæði í Evrópu og Norður Ameríku frá næsta vori, segir í frétt frá fyrirtækinu.