Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Vísir kaupir vinnslubúnað af Marel
Laugardagur 13. ágúst 2011 kl. 13:44

Vísir kaupir vinnslubúnað af Marel

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf., sem er með höfuðstöðvar í Grindavík, hefur undirritað samning um kaup á vinnslubúnaði frá Marel í allar fjórar landvinnslueiningar sínar. Um er að ræða vinnslulínu, skurðarvélar, samvalsflokkara, hráefnisflokkara og vogir, ásamt Innova hugbúnaði, að því er fram kemur á heimasíðu Marels.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samningurinn er mikilvægur áfangi fyrir báða aðila. Fyrir Vísi, er mikilvægt að nýta sér ávallt nýjustu tækni sem völ er á hverju sinni. Fyrirtækið rekur útgerð og landvinnslu á Íslandi, auk þess að taka þátt í sjávarútvegi erlendis. Umfang fyrirtækisins er því mikið og mikilvægt að hafa sem besta yfirsýn og eftirlit með framleiðslunni. Fyrir Marel er hér um að ræða stærstu einstaka sölu á búnaði í íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki.

Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis, segir við heimasíðu Marels: „Við höfum mjög góða reynslu af samstarfi við Marel þegar kemur að tækja- og hugbúnaði. Marel þekkir þarfir sjávarútvegsins og það endurspeglast í virkni og gæðum búnaðarins. Okkar markmið er að byggja á traustum vinnslu- og hugbúnaði sem er í stöðugri þróun og getur fylgt okkur inn í framtíðina. Við teljum Marel uppfylla þær kröfur og því veljum við búnað frá Marel."

Stærstur hluti vinnslubúnaðarins verður settur upp í starfsstöð Vísis á Húsavík til endurnýjunar á eldri búnaði en einnig verður settur upp búnaður á Djúpavogi og Þingeyri. Nýi búnaðurinn mun bæta mjög alla aðstöðu starfsfólks ásamt því að auka framleiðslugetu og nýtingu í framleiðslu á ferskum fiski til útflutnings. Með þessum samningi er Vísir hf. kominn með Innova hugbúnað frá Marel í allar sínar landvinnslueiningar til notkunar við gæða- og vinnslueftirlit.

Mynd: Jón Þór Hallgrímsson, Andrés Óskarsson, Pétur Hafsteinn Pálsson, Páll H. Pálsson, Óskar Óskarsson og Guðjón Stefánsson við undirritun samningsins.