Vinsæll Vetrargarður hjá Bláa lóninu
Veitingahúsið við Bláa lónið er eitt glæsilegasta veitingahús landsins. Umhverfið er einstakt og maturinn og þjónustan eru í sérflokku. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda frá því hann opnaði í júlí í fyrra. Sigurður Jónsson matreiðslumeistari sér um rekstur veitingahússins og Sveinn Sveinsson, framleiðslumeistari hefur yfirumsjón með salnum og er hægri hönd Sigurðar. Bæði Sigurður og Sveinn hafa áralanga reynslu á þessu sviði en Sigurður vann um fimmtán ára skeið hjá Flugleiðum og Sveinn í 35 ár á Hótel Sögu.Sigurður segir að það hafi verið brjálað að gera allt frá opnun. Sveinn skýtur inní að þeim hafi verið hent út í laugina kútlausum en nú séu þeir komnir með kúta og orðnir vel sjóaðir. Þeir segja að móttökurnar hafi verið mjög góðar bæði hjá Íslendingum og erlendum ferðamönnum enda leggi þeir sig fram við að koma til móts við þarfir viðskiptavina. „Við leggju áherslu á að bjóða gestum okkar uppá fjölbreytta valkosti. Í kvöld erum við t.d. með erlendan hóp sem er að gæða sér á íslenskum sérréttum og 250 manna hóp frá Nýherja en þeir vildu vera með létta rétti. Á kvöldin er fólk mikið í sérréttamatseðlunum og í hádeginu koma oft minni hópar. Annars dreifast hóparnir mikið yfir daginn“, segir Sveinn. „Mér hefur fundist mjög gaman að vinna hér og takast á við þetta verkefni enda er þetta vaxandi fyrirtæki og mjög spennandi vinnustaður“ segir Sigurður og Sveinn tekur undir það.