Vinsælar vörur úr Costco í verslun Extra í Keflavík
Tvær nýjar matvöruverslanir undir vörumerkinu Extra hafa verið opnaðar í Keflavík og á Akureyri og koma þær í stað Iceland verslana sem voru þar fyrir. Verslanir Extra eru opnar viðskiptavinum allan sólarhringinn og er lögð áhersla á fjölbreytt vöruúrval, hagstætt verð og hraða og góða þjónustu.
„Það kemur sér síðan extra vel fyrir viðskiptavini okkar að við bjóðum upp á 20 vinsælar Costco vörur á Costco verði og má þar til dæmis nefna eldhúspappír, klósettrúllur, þvottaefni, gosdrykki og ávaxtasafa,“ segir Sigurður Karlsson forstjóri Basko í tilkynningu.
Til stendur að opna fleiri Extra verslanir á næstu misserum og er stefnan sett á að opna þriðju verslunina í ágúst á þessu ári. Sú verður staðsett á Barónstíg 4, í því plássi sem verslun 10-11 var áður.
Verslanir Extra eru í eigu Basko ehf. sem á og rekur verslanir 10-11 og Kvikk.