Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Vinnur fyrir eina stærstu streymisveitu heims
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. október 2023 kl. 06:13

Vinnur fyrir eina stærstu streymisveitu heims

Magnús Orri Arnarson hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Flestir ættu að kannast við Magnús eftir að hafa hafa séð hann á skjá landsmanna í þáttunum Með okkar augum – en Magnús er jafnhæfur fyrir framan og aftan myndavélina og hann hefur verið að vinna stór verkefni fyrir streymisveituna Netflix að undanförnu.

„Þetta er hljóðblöndun sem ég er að vinna við. Við erum sjö, átta manna teymi sem fáum tónlist senda til að hljóðblanda og við erum líka að finna lög sem hægt er að nota í vissa sjónvarpsþætti. Það eru þá lög sem er búið að gefa út og framleiðandi þáttanna setur sig svo í samband við rétthafa lagsins ef hann við fá að nota það í þættina,“ segir Magnús en það er svo í verkahring teymisins að vinna lögin svo þau falli að sjónvarpsþáttunum. „Við fáum oft leyfi til að taka lögin af YouTube ef við fáum þau ekki send til okkar og þá tek ég það inn í þetta forrit sem ég er að vinna á, Adobe Autotune, og þar er ég að hækka og lækka og fikta í allskonar stillingum. Svo sendi ég þetta á ákveðinn aðila í framleiðsluteyminu sem segir hvort þurfi að breyta einhverju – og það er ansi oft sem maður þarf að breyta alveg helling. Það sem ég er að vinna að núna er tónlist fyrir þriðju þáttaröð Heartstopper sem kemur út 2025“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Magnús að fara yfir stiklu sem hann vann að fyrir Netflix.

Byrjaði sem skólaverkefni

Magnús segir að upphafið að því að hann tók að starfa fyrir Netflix hafi verið þegar þekktur framleiðandi kom til Íslands árið 2020 og þeir hittust á kvikmyndaráðstefnu.

„Þarna var ég með skólanum [FS], eða það var mitt verk að fara á þessa ráðstefnu og læra eitthvað um mitt áhugamál. Þannig að ég fór einn á þessa ráðstefnu og hitti þennan framleiðanda og við áttum gott spjall saman. Síðan fór hann að fylgja mér á Instagram og eftir það hefur hann verið að fylgjast með því sem ég er að gera; Með okkar augum, öllum námskeiðunum sem ég er að taka og þannig.

Ég pósta ofboðslega mikið á Instagram og kem mér þannig á framfæri. Honum leist mjög vel á mig og sá að ég var að vinna mikið við tónlist, ekki bara tónlist heldur taka upp og klippa. Þannig að hann bauð mér hvort ég vildi prófa eitthvað lítið starf. Ég vissi ekkert að það væri fyrir Netflix en hann spurði hvort ég vildi taka þetta að mér ásamt þá fleiri aðilum, sem eru frá Bretlandi, Írlandi og Svíþjóð, og vera þá reglulega í samstarfi við þá.“

Magnús sló til og segir að það hafi verið svolítið erfitt í fyrstu. „Ég bara prófaði það. Fyrst var það svolítið erfitt, maður þarf að tala á ensku og vera í öllum samskiptum á ensku,“ segir Magnús. „Svo leist honum bara svona vel á mig að hann sagði mér að hann væri að vinna að annarri þáttaröð Heartstopper sem hann framleiðir og hann vildi fá mig í lið með sér. Við vorum þrettán manns í þessu teymi, víðsvegar um Evrópu.“

Þáttaröðin Heartstopper er stærsta verkefnið sem Magnús vinnar að fyrir Netflix.

Með vinsælustu þáttunum

Heartstopper, þáttaröðin sem Magnús er að vinna við að hljóðblanda, eru breskir þættir sem segja frá ástar- og vinasamböndum tveggja samkynhneigðra unglingspilta. Þættirnir hafa notið mikilli vinsælda en þeir gerast að mestu í skóla strákanna og fjalla um ástir, vináttu og tryggð.

„Önnur þáttaröð var frumsýnd þann 3. júlí og ég sá að þetta var einn af vinsælustu þáttunum hérna á Íslandi þegar þeir voru sýndir. Það var mjög gaman og skemmtilegt að það skyldi vera tekið svona vel í það.“

Hljóðblöndun er ekki það eina sem Magnús gerir fyrir Netflix. „Ég klippi líka kynningarstiklur ásamt öðrum klippurum. Þá eru það sýnishorn úr öllu því helsta sem er verið að sýna í hverjum mánuði. Við fáum sendar klippur sem við mixum saman,“ segir Magnús og bætir við að í fyrstu hafi hann eingöngu unnið við að setja texta inn í þessar stiklur en sé nú að klippa saman ásamt öðrum klippurum.“

Magnús þarf að vera vel að sér í þeim forritum sem eru notuð á markaðnum en það eru ekki endilega alltaf sömu forritin sem klipparar þurfa að vinna á. „Allt sem ég geri fyrir Netflix er unnið í Adobe Premier Pro en svo þegar ég er að klippa fyrir RÚV nota ég forrit sem heitir Sony Vegas.“

Samstarfið við Netflix hefur skilað Magnúsi fleiri áhugaverðum verkefnum héðan og þaðan. Hann hefur t.a.m. verið að vinna fyrir BBC, það eru þá verkefni sem BBC er að framleiða en verða sýnd seinna á Netflix, jafnvel mörgum árum seinna.

„Svo hefur þetta bara undið upp á sig. Núna er ég að leggja lokahönd á þætti sem heita Bridgerton, sería fjögur. Það er ekkert rosalega stórt verkefni, ég er bara að litaleiðrétta og mixa tónlist. Heart-stopper er stóra verkefnið mitt þessa dagana.“

Magnús hefur í nógu að snúast því auk þess að vinna að kvikmynda- og þáttagerð er starfar hann í Gerðaskóla. „Ég er þar sem gangavörður. Ég verð líka að vinna með fólki, hitta fólk. Þessi klippivinna fer öll fram á vinnustofunni minni heima þar sem ég sit einn við tölvuna og ég er jafnvel að vinna langt fram á nótt,“ sagði Magnús Orri að lokum.

Hljóðblöndun er meðal þess sem Magnús vinnur við.

Magnús hvetur alla til að fylgja sér á Instagram þar sem hann er undir notandanafninu Maggiklipp.