„Viljum gera fáa hluti en hafa þá 100%“
— Dirty Burgers & Ribs við Hafnargötu í Keflavík
„Við höfðum lengi verið spenntir fyrir því að opna veitingastað í Keflavík og þegar okkur var boðið þetta húsnæði þá fannst okkur það passa vel fyrir þessa starfsemi,“ segir Birgir Helgason, framkvæmdastjóri Dirty Burgers & Ribs. Veitingastaðurinn hefur verið rekinn um nokkurra mánaða skeið í húsnæði gömlu Aðalstöðvarinnar við Hafnargötu.
Aðalstöðin var ein sögufrægasta sjoppa bæjarins og þar var lúgumenningin rík. Dirty Burgers & Ribs gera einmitt út á lúgumenninguna. Fyrsti veitingastaðurinn þeirra við Miklubraut í Reykjavík er einmitt í gamalli sjoppu við bensínstöð þar sem hamborgarar og rif eru afgreiddir út um lúgu og í lítinn sal.
Birgir segir að saga hússins við Hafnargötuna sé spennandi og henni er einmitt gerð skil í myndum á veggjum þar sem stórar myndir af Aðalstöðinni frá ýmsum tímum eru í römmum.
„Það var skemmtileg áskorun að opna veitingastað utan Reykjavíkur og hér höfum við fengið fínar móttökur,“ segir Birgir. Hann segir í samtali við blaðamann að stór hópur fólks hafi sótt um vinnu hjá Dirty Burgers & Ribs áður en staðurinn hafi opnað við Hafnargötuna. Nú séu ellefu til tólf manns í vinnu hjá staðnum í Keflavík, flestir í hlutastarfi, enda henti vinna á veitingastöðum til dæmis skólafólki. „Þegar við svo opnuðum voru móttökurnar alveg ótrúlegar og betri en við þorðum að vona og við erum að sjá sömu andlitin hér aftur og aftur, sem segir okkur að við séum að gera góða hluti.“
Matseðillinn á Dirty Burgers & Ribs er ekki flókinn. Hamborgari, grísarif, kjúklingavængir, samloka og shake. „Við viljum gera fáa hluti en hafa þá 100%. Matseðillinn okkar er eftir Agnar Sverrisson sem rekur Michelin stjörnu veitingastað í London. Hann hefur þróað matseðil okkar niður í minnstu smáatriði og allt hjá okkur er unnið eftir uppskrift frá honum, hvort sem það eru brauð eða sósur og kjötið í borgarana er sérvalið. Við pælum eiginlega óeðlilega mikið í hamborgurum,“ segir Birgir og brosir. Hann upplýsti jafnframt að nýjunga væri að vænta á matseðli á næstu vikum.
Aðspurður hvort hamborgaramenningin væri öðruvísi í Keflavík en Reykjavík, sagði Birgir að svo væri ekki. Straumur væri á staðinn alla daga vikunnar, sem væri þó vaxandi eftir því sem líður á vikuna og mest væri að gera á föstudögum og laugardögum og meira á kvöldin en í hádeginu. Í sal veitingastaðarins er stórt sjónvarp uppi á vegg og þar er hægt að horfa á enska boltann á sama tíma og borðað er en veitingastaðurinn selur bjór í sal. Þá bjóða Dirty Burgers & Ribs upp á tilboð fyrir skólafólk og fyrirtæki geta fengið magnafslætti með því að senda óskir um slíkt á [email protected].