Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mánudagur 3. nóvember 2003 kl. 09:27

Viljayfirlýsing undirrituð um orkuviðskipti vegna stækkunar á Grundartanga

Norðurál, Hitaveita Suðurnesja hf og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu sl. föstudag viljayfirlýsingu um orkuöflun til stækkunar Norðuráls úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn. Gert er ráð fyrir að stækkunin eigi sér stað vorið 2006. Samkomulagið er háð fyrirvörum um að aðilar ljúki nauðsynlegum samningum og fái tilskilin leyfi.

Undarfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli Norðuráls og orkufyrirtækjanna tveggja um að þau sjái fyrirhugaðri 90.000 tonna stækkun Norðuráls fyrir því rafmagni sem framleiðsluaukningin krefst.  Um er að ræða um 150 MW af rafafli og um 1340 GWh af raforku.  Til fróðleiks má geta þess að rafmagnsþörf svæðis Orkuveitu Reykjavíkur er um 160 MW að afli og tæpar 1000 GWh af orku. 

Fyrirhugað er að Hitaveita Suðurnesja reisi um 80 MW virkjun á Reykjanesi og að Orkuveitan reisi um 80 MW virkjun á Hellisheiði.
 
Með þessum framkvæmdum skapast mörg störf bæði hjá orkufyrirtækjunum og Norðuráli. Við framkvæmdirnar aflast mikil, fjölþætt og ný reynsla og þekking við virkjun háhitasvæða á Íslandi. Framkvæmdirnar í heild sinni eru mikilvægir áfangar á vegi sjálfbærar þróunar og eru til þess fallnar að losun úrgangsefna við framleiðslu áls verði sem minnst. Við uppbyggingu orkuvera og álvers munu allt að 800 manns starfa og þegar framkvæmdum lýkur koma um 30 manns til með að starfa við virkjanirnar og um 330 manns munu starfa hjá Norðuráli, en þar af bætast við um 130 ný störf vegna stækkunarinnar. Þar fyrir utan verður um fjölda afleiddra starfa að ræða.

Fjárfesting í virkjunum og flutningsvirkjum verður rúmlega 20 milljarðar og í álveri rúmlega 25 milljarðar. Gert er ráð fyrir því að miðað við meðalverð á áli og núverandi gengi íslensku krónunnar muni stækkunin í 180.000 tonn auka verðmæti útflutnings frá Íslandi um 12 milljarða króna á ári.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024