Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Víkurfréttir ehf. 20 ára!
Fimmtudagur 9. janúar 2003 kl. 10:46

Víkurfréttir ehf. 20 ára!

Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta hefur helgað hálfri ævi sinni útgáfu Víkurfrétta. Í vikunni voru liðin 20 ár frá því hann stofnaði hlutafélag um rekstur Víkurfrétta, þá sjálfur tvítugur að aldri. Það var 7. janúar 1983 sem Páll keypti Víkurfréttir í félagi við aðra af prentsmiðjunni Grágás. Víkurfréttir komu fyrst út á Suðurnesjum í ágústmánuði 1980. Fljótlega var farið að gefa blaðið út vikulega en um tíma komu Víkurfréttir út tvisvar í viku. Í dag er blaðið gefið út einu sinni í viku og borið inn á öll heimili á Suðurnesjum. Í dag eru Víkurfréttir í eigu Páls Ketilssonar og eiginkonu hans, Ásdísar Bjarkar Pálmadóttur. Hjá Víkurfréttum ehf. starfa í dag 15 manns í tveimur starfsstöðvum í Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Víkurfréttir ehf. eru alhliða fjölmiðla- og útgáfufyrirtæki:

Fréttavefurinn www.vf.is opnaði formlega þann 15. júní 1995. Fyrstu árin var efni blaðsins sett inn á vefinn vikulega en um áramótin 1999/2000 var farið að flytja daglegar fréttir á vef blaðsins. Í dag er www.vf.is langstærsti fréttavefur Suðurnesja og sá miðill sem stærstu vefmiðlar landsins treysta á í fréttaflutningi af Suðurnesjum.

Víkurfréttir ehf. hófu útgáfu á Tímariti Víkurfrétta vorið 1999. Þar er á ferðinni glæsilegt tímarit sem tekur á mannlífi Suðurnesja á litskrúðugan og skemmtilegan hátt. Blaðið er að jafnaði 48-64 síður og hefur verið metsölutímarit á Suðurnesjum frá því að kom fyrst út.

The White Falcon er fréttablað Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Víkurfréttir annast útgáfu blaðsins og hafa einkaleyfi á sölu auglýsinga í blaðið, sem er það eina sem dreift er innan varnarstöðvarinnar. Varnarliðið skrifar sjálft allar fréttir í blaðið en auglýsingar eru seldar í gegnum Víkurfréttir.

Víkurfréttir ehf. reka sjónvarpsrás á kapalkerfi Kapalvæðingar í Reykjanesbæ. Stöðin sendir út efni í skjámyndaformi og næst á um 1500 heimilum.

Nýjasta afkvæmi Víkurfrétta-fjölskyldunnar er vikulegt frétta- og auglýsingablað í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Blaðið heitir VF og hefur undirtitilinn Vikulega í Firðinum. Blaðinu er dreift í um 11.000 eintökum inn á öll heimili og fyrirtæki.

Víkurfréttir ehf. eru umboðsaðili Norðurljósa á Suðurnesjum.


Myndin: Páll Ketilsson með afmælistertu í tilefni tímamótanna og 20 ára afmælis Víkurfrétta ehf. Það eru ekki mörg útgáfufyrirtæki á Íslandi sem geta státað af sömu kennitölunni í 20 ár eða lengur!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024