Viðskiptavinum fjölgaði um 1000 manns
Það var mikið um að vera í útibúi Íslandsbanka í Reykjanesbæ á mánudaginn. Þá sameinuðust útibú Byrs og Íslandsbanka undir merkjum Íslandsbanka. Í tilefni dagsins var útibúið opið til kl. 18 og viðskiptavinum boðið upp á veitingar og mörgæsin Georg mætti á svæðið og skemmti börnunum.
Sighvatur Ingi Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka, sagði spennandi tíma framundan í bankanum en útibúið stækkaði mikið við sameininguna við Byr í Reykjanesbæ. Viðskiptavinum útibúsins fjölgaði um eitt þúsund. Sighvatur sagði að sameining bankanna hafi gengið hnökralaust fyrir sig. Viðskiptavinir Byrs haldi áfram öllum sínum reikningsnúmerum en aðeins bankanúmer breytist. Unnið verður áfram í sameiningu bankanna á næstu vikum en margar góðar lausnir úr heimabanka Byrs verða virkjaðar í heimabanka Íslandsbanka. Meðfylgjandi mynd var tekin að afloknum vinnudegi í Íslandsbanka sl. mánudagskvöld og hér má sjá starfsfólk sameinaðs banka.
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson