„Viðbrögðin hafa valdið okkur gríðarlegum vonbrigðum,“ segir eigandi Víkurprjóns
Ágúst Þ. Eiríksson, eigandi Drífu ehf.(Icewear) sem rekur saumastofuna Víkurprjón í Vík í Mýrdal furðar sig á viðbrögðum Suðurnesjamanna vegna saumastofu sem til stendur að opna í Reykjanesbæ í næsta mánuði. Auglýst hefur verið eftir starfsfólki en til stendur að manna 10-11 stöður. Ágúst segir aðeins fimm manns hafa sótt um enn sem komið er. Eins og flestir vita er atvinnuleysi á landinu mest á Suðurnesjunum og því þykir þetta furðu sæta.
Ágúst segir að æskilegt sé að starfsfólk hafi reynslu úr saumaskap en þó stendur starfsþjálfun til boða ef þurfa þykir. Fyrirtækið sem er í miklum vexti sá sér kost á því að hefja starfsemi hér á svæðinu enda hentar staðsetningin vel. „Við litum svo á að það væri sniðug hugmynd að hefja starfsemi hér. Mikið atvinnuleysi er á svæðinu og þá sérstaklega á meðal kvenna. Viðbrögðin hafa valdið okkur gríðarlegum vonbrigðum. Ég átti von á því að um 30 manns myndi sækja um, maður spyr sig því hreinlega um hvað sé eiginlega í gangi á Suðurnesjum,“ segir Ágúst en hann segir að til standi að borga laun sem séu vel samkeppnishæf. „Samkvæmt þessu er ekki að sjá að það sé mikið atvinnuleysi þarna.“
Áhugasamir sendi umsókn á [email protected] eða á Víkurprjón ehf, Austurvegi 20, 870 Vík fyrir 24. maí n.k. Ekki er tekið á móti umsóknum í síma. Fólk af atvinnuleysisskrá hefur forgang og er æskilegt að fólk geti hafið störf sem fyrst.