Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Verslunarfélagið flutti frá Egilsstöðum til Keflavíkur
Birgitta Ósk Helgadóttir í Verzlunarfélaginu við Hafnargötu 54 í Keflavík. VF-myndir/hilmarbragi.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 07:26

Verslunarfélagið flutti frá Egilsstöðum til Keflavíkur

Fjölskylda frá Egilsstöðum settist að í Reykjanesbæ í vetur. Þau fluttu verslun með sér þvert yfir landið og hafa nú opnað Verzlunarfélagið í húsnæði við Hafnargötu 54 í Keflavík. Verslunin var áður rekin á Egilsstöðum og einnig á netinu á slóðinni verzlunarfelagid.is.

„Maðurinn minn hafði starfað við smíðar hér í Reykjanesbæ í á annað ár og það var mikið um ferðalög fram og til baka, þannig að í vetur ákváðum við að gera eitthvað nýtt og flytja bara til Reykjanesbæjar,“ segir Birgitta Ósk Helgadóttir, sem á Verzlunarfélagið ásamt eiginmanni sínum, Guttormi Pálssyni. Hún er frá Borgarfirði eystri og hann frá Egilsstöðum. Birgitta og Guttormur höfðu búið á Egilsstöðum í tíu ár áður en þau ákváðu að koma til Reykjanesbæjar. Og þau völdu sér heldur betur tímasetninguna og höfðu bara búið í bæjarfélaginu í eina viku þegar öllu var lokað vegna COVID-19.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verzlunarfélagið átti að vera löngu búið að opna við Hafnargötuna, en þau reka einnig vefverslun og hún hafði aðstöðu fyrir vörulager í bílskúrnum við heimili þeirra í Njarðvík.

— Hvað einkennir þessa verslun ykkar?

„Þetta er verslun með gjafavöru og heimilisvöru. Þetta er skandinavísk verlsun með vörur frá Danmörku, Svíþjóð og reyndar Hollandi líka. Við erum að flytja vörurnar inn sjálf og leitumst við að bjóða vörur sem fást ekki annarsstaðar á Íslandi. Við reynum að vera með vörur á góðu verði og það hefur reynst vel“.

Verzlunarfélagið opnaði á Egilsstöðum 2016 og vefverslunin opnaði samhliða og að sögn Birgittu er viðskiptahópurinn um allt land og margir af Suðurnesjum hafa verið í hópi viðskiptamanna og hafa því tekið versluninni við Hafnargötu fagnandi.

„Við höfum haft opið hér við Hafnargötuna í tvær vikur og fengið frábærar móttökur og fólk virðist líka almennt glatt yfir því að það sé að færast aftur verlsunarlíf í götuna. Fólk segir að því langi að versla í heimabyggð og það er jákvætt“.

Verzlunarfélagið er ekki eina nýja búðin við Hafnargötu og fleiri nýjar verslanir eru að opna við götuna um þessar mundir.

Birgitta segir að í Verzlunarfélaginu eigir þú að geta komið inn og keypt þér eitthvað fallegt fyrir heimilið án þess að að kosti hálfan handlegginn. Vörurnar segist hún finna á vörusýningum erlendis og einnig í gegnum netið. Þrátt fyrir COVID-19 hefur gengið vel að fá vörur til landsins frá byrgjum erlendis.

Verzlunarfélagið er opið virka daga frá kl. 11 til 18 og á laugardögum frá kl. 11 til 15.