Verslun sem fáir vita af
Gallerí Björg lætur ekki mikið yfir sér en það er staðsett við hringtorgið, Hafnargötu 2 í Keflavík. Þegar inn er komið blasir við sannkallaður ævintýraheimur; handunnir munir í öllum regnbogans litum sem handverksfólk á Suðurnesjum hefur nostrað við á dimmum síðkvöldum. Í galleríinu má m.a. finna falleg peysu- og húfusett á börn, sokka og vettlinga, dúka í mörgum litum, ámálaða og rennda trémuni, handgerða skartgripi, fallega kertastjaka úr íslensku grjóti, postulín- og leirmuni, lopapeysur af ýmsum gerðum og stærðum, að ógleymdum plastpokamottunum, en það eru mottur sem heklaðar eru úr plastpokum.Áhugafólk um handverkKristrún Hauksdóttir er ein fjölmargra sem komið hafa að rekstri og umsjón gallerísins en hún segir að upphaflega hafi þetta verið hugsað sem atvinnuátak fyrir konur. „Árið 1991 var mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og þá var ákveðið að fara af stað með þetta átak. Reyndar hefur einn og einn karl slæðst með og nú er svo komið að þeir sem að þessu standa er sjálfstæður hópur fólks sem hefur áhuga á ýmis konar handverki“, segir Kristrún og bætir við að hópurinn hittist á hverju fimmtudagskvöldi og föndri saman og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.Fáir vita af okkurAð sögn Kristrúnar er gallerí Björg vettvangur fyrir fólk til að koma verkum sínum á framfæri og verslunin er í raun gróðalaus umboðssala. „Þessi verslun hérna opnaði árið 1995 en okkur virðist hafa mistekist að koma okkur á framfæri. Ég hef rekið mig á að margir vita ekki að hér sé rekin verslun. Þegar fólk kemur loksins hingað inn er það yfirleitt dolfallið, en einnig miður sín yfir að hafa ekki vitað af þessari verslun allan þennan tíma“, segir Kristrún.Áhersla á nytjavörurGallerí Björg var með bás á handverkssýningunni sem haldin var í Laugardagshöll á dögunum og að sögn Kristrúnar vakti hann athygli og reyndist góð auglýsing. „Við höfðum talsverða sérstöðu á þessari sýningu því það virðist lítið um að fólk sé að prjóna barnapeysur og svoleiðis nú til dags. Við erum bara einhverjar lummó prjónakerlingar úti í bæ“, segir Kristrún og hlær, en bætir við að þau leggi megináherslu á nytjavöru. „Við tökum að okkur ótrúlegustu hluti, t.d. höfum við klárað hálfprjónaðar peysur, gert við og svo prjónum við líka eftir pöntunum, sé þess óskað“, segir Kristrún.Á sýningu í BandaríkjunumLandvinningar Gallerís Bjargar líta út fyrir að verða stórir á þessu ári, því í lok maí verður opnuð stór sýning í Atlanta í Bandaríkjunum, sem ber heitið Scandinavia Today, en þangað hefur Gallerí Björg sent ýmsa þjóðlega smávöru. „Við sendum aðallega lopavöru, vettlinga og húfur og þvíumlíkt. Ástarvettlingarnir okkar fóru líka með að ógleymdum pelapeysunum sem henta vel í útileguna og á hestbak og hafa vakið mikla lukku“, segir Kristrún.