Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Verkfræðistofa opnar í Garðinum
Miðvikudagur 12. janúar 2011 kl. 09:35

Verkfræðistofa opnar í Garðinum

Pétur Bragason, verkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá verkfræðistofunni Verkmáttur, sér ýmis teikn um að árið 2011 verði betra rekstrarár en síðustu tvö ár. Velta og verkefnastaða fyrirtækisins var mjög svipuð á árunum 2009 og 2010 og eru þónokkur verkefni í pípunum fyrir þetta ár.

Verkfræðistofan Verkmáttur flutti skrifstofu sína í Garðinn nú um áramótin og hentar sú staðsetning fyrir þekkingarfyrirtæki eins og Verkmátt mjög vel. Þá er Pétur einnig að flytja með fjölskyldu sína frá Grindavík og í Garðinn, þar sem hann er fæddur og uppalinn. Verkfræðistofan var áður til húsa við Hafnargötu í Reykjanesbæ.

„Okkur hefur verið einstaklega vel tekið í bæjarfélaginu af bæði ráðamönnum og íbúum og gaman væri að fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið og færðu sig um set í Garðinn,“ segir Pétur í samtali við Víkurfréttir.

Hjá fyrirtækinu starfa fjórir vel menntaðir og góðir starfsmenn og leggur fyrirtækið mesta áherslu á arkitekta- og burðarvirkishönnun ásamt hönnunar- og byggingarstjórnun.
„Helstu verkefni okkar á sl. árum hafa verið varðandi viðbyggingu Hópsskóla í Grindavík, stækkun Gerðaskóla í Garði og byggingu þurrkstöðvar á Reykjanesi“.


Þá segir Pétur að „Fyrirtækjaheilsa“ sé ný þjónusta sem Verkmáttur bauð upp á á sl. ári og hefur hún mælst mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum. „Þetta er þjónusta sem er alveg ný af nálinni hér á landi og fer mjög vel af stað. Við höfum einnig unnið að ýmsum atvinnuskapandi verkefnum, hannað gæðakerfi og fleira. Það er mjög lærdómsríkt að reka ungt fyrirtæki, krefjandi og skemmtilegt og oft gaman hjá okkur í vinnunni,“ segir Pétur Bragason, verkfræðingur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Myndin:  Starfsmenn Verkmáttar. F.v.: Guðmundur Óskar Unnarsson, Guðni Sigurbjörn Sigurðsson, Þórhallur Garðarsson og Pétur Bragason. Á  myndina vantar Brynjar Pétursson úr Grindavík en hann starfar talsvert með fyrirtækinu. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi