Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Vélsmiðja Grindavíkur með starfsemi í Grindavík og í Hafnarfirði
Bjarki Sigmarsson hjá Vélsmiðju Grindavíkur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 06:07

Vélsmiðja Grindavíkur með starfsemi í Grindavík og í Hafnarfirði

„Lofa skal lamb að hausti,“ segir áhugafjárbóndinn Bjarki Sigmarsson. Hann er starfsmaður Vélsmiðju Grindavíkur en fyrirtækið var eitt það fyrsta til að hefja starfsemi á ný í Grindavík eftir fyrri rýminguna í nóvember og hefur síðan þá opnað útibú í Hafnarfirði. Bjarki er áhugafjárbóndi og er sauðburði nýlokið hjá honum og öðrum af eigendum Vélsmiðju Grindavíkur, Ómari Davíð Ólafssyni.

„Það hefur verið nokkuð mikið að gera hjá okkur, auðvitað ekki eins og á sama tíma í fyrra en nokkuð mikið samt sem áður. Við erum mest að þjónusta báta og skip og svo erum við eina búðin í Grindavík í dag sem selur samlokur, kruðerí og drykki. Íbúar eru að koma til að kaupa ruslapoka og ýmislegt annað en mest eru þetta iðnaðarmenn að koma og versla, það er talsvert af þeim inni í bænum og við getum þjónustað þá um það helsta sem þeim vantar. Venjulega vorum við með tvo bifvélavirkja en erum með einn núna og það er nóg að gera hjá honum, fólk kemur frekar með bílinn sinn hingað í viðgerð í stað þess að bíða í nokkrar vikur eftir að komast að annars staðar. Við opnuðum auðvitað útibú í Hafnarfirði og það er talsvert starfsemi þar í kringum báta og skip svo ég held að við getum ekki mikið kvartað.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bjarki og kona hans hafa komið sér fyrir í Njarðvík en hann verður með annan fótinn í Grindavík þar sem hann er með fjárbúskap austur í hverfi.

„Við hjónin vorum svo heppin að við gátum flutt inn á dóttur okkar í Ytri-Njarðvík og við vorum að gera tilboð í íbúð þar. Ég verð nú samt alltaf með annan fótinn hér í Grindavík, bæði er ég að vinna hér og er með fjárbúskap austur í hverfi, n.t.t. í Bjarmalandi. Sauðburður var einmitt að klárast í gær og við munum fara með féð á fjöll í kringum næstu mánaðarmót. Við Ómar erum með 24 rollur á vetrarfóðrum sem báru núna, það er kannski ljótt að segja það en ég hreinlega man ekki hversu mörg lömb ég fékk. Þær fara svo eins og vera ber á fjöll, ég hef lært að það þýðir ekkert að tala um hversu vel lömbin líta út nýfædd, lofa skal lamb að hausti,“ sagði Bjarki að lokum.