Útboðið kært og tilboðin ekki opnuð
Stríðsyfirlýsing SSS á ferðaþjónustu og samkeppni, segir markaðsstjóri Allrahanda. Kynnisferðir sem höfðu síðast sérleyfi á leiðinni kærðu útboðið. Árleg velta um milljarður króna.
Útboð sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum stóð fyrir á akstri hópferðabifreiða til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og átti að opna 4. jan. sl. var kært til kærunefndar útboðsmála. Í kjölfarið var farið fram á að útboðið verði stöðvað þar til niðurstöður kærunefndar liggi fyrir. Berglind Kristinsdóttir framkvæmdarstjóri SSS vildi ekki tjá sig um málið þar sem það væri á viðkvæmu stigi. Hún segir að unnið sé að greinargerð um kæruna sem kemur út þann 18. janúar nk.
Óánægja hefur verið hjá rútufyrirtækjunum vegna útboðsins sem kært var af Kynnisferðum. Annað fyrirtæki sem sinnt hefur akstri til og frá Leifsstöð, Allrahanda segir SSS vera með stríðsyfirlýsingu á ferðaþjónustu og samkeppni. Sjá nánar á bls. 14 í blaðinu í dag.
Samkvæmt heimildum VF er peningaleg velta á þessum rekstri árlega um milljarður króna. Í útboðinu gerir SSS ráð fyrir því að fá 35% af hverjum seldum farmiða.
„Tilboð voru ekki opnuð vegna kröfu úrskurðarnefndar útboðsmála um að stöðva útboðsferlið á meðan farið er yfir gögn,“ sagði Berglind sem vildi ekki tjá sig um efnisinnihald kærunnar. „Þetta er á viðkvæmu stig og það þarf svo lítið að segja til þess að skemma hreinlega útboðið. Meðan þetta er í þessu ferli þá verðum við að sitja á strák okkar og tala varlega.“
Óánægja hjá rútufyrirtækjunum með útboðið
Samkvæmt heimildum VF bárust tilboð í aksturinn frá eftirtöldum aðilum: Þingavallaleiðum ehf., Kynnisferðum ehf., SKB, Bílum og Fólki ehf., Hópbílum og Iceland excursion - Allrahanda.
Samkvæmt upplýsingum sem Víkurfréttir hafa undir höndum kærðu Kynnisferðir ehf. útboð Sambands sveitarfélaga og voru kröfur Kynnisferða m.a. þær að auglýsa skuli útboð á nýjan leik. Einnig kemur þar fram að Kynnisferðir telji samningstíma vera of langan en hann getur mest orðið átta og hálfs árs með framlengingum, en rammasamning megi ekki gera til lengri tíma en fjögurra ára. Kynnisferðir segja að samningurinn sé rammasamningur um þjónustu en ekki sérleyfissamningur um þjónustu. Í skjalinu kemur fram að endanlega verði leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
Tekið var við tilboðunum en þau ekki opnuð. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum stóð fyrir útboðinu, samkvæmt samningum við Vegagerðina um að annast almenningssamgöngur á svæðinu. Óánægja hefur verið hjá rútufyrirtækjunum vegna útboðsins.
Kynnisferðir hafa annast akstur til flugstöðvarinnar í áratugi, síðustu árin í samkeppni við Iceland Excursions Allrahanda, sem einnig hafa boðið upp á ferðir frá Flugstöðinni. Fulltrúi Kynnisferða lýsti því jafnframt yfir að fyrirtækið myndi halda akstri áfram, hver sem niðurstaða útboðs yrði.
Ekkert akstursleyfi í gangi – segja Allrahanda
Í bókun frá Iceland Excursions Allrahanda ehf. sem hefur undanfarin ár ekið með farþega til og frá Keflavíkurflugvelli í tengslum við komur og brottfarir segir að fyrirtækið hyggist ekki hætta að bjóða upp á þá þjónustu enda sé hún liður í íslenskri ferðaþjónustu. Þar segir að ferðir félagsins séu fullkomlega löglegar og að öllum aðgerðum sem reyni að hindra aðgengi félagsins að viðskiptavinum sínum verði mætt af fullri hörku og með öllum tilteknum löglegum ráðum. Þórir Garðarson sölu- og markaðsstjóri hjá Allrahanda sagði í samtali við Víkurfréttir að ekkert leyfi sé í gildi varðandi akstur til og frá Flugstöðinni að þeirra mati.
Þarna sé markaður sem lúti að almennum samkeppnislögum. Sérleyfi var áður fyrr á akstrinum hjá Kynnisferðum og um tíma hjá SBK þegar félagið var í eigu Reykjanesbæjar. Síðan var gefið út einkaleyfi sem gilti til aksturs innan lögsagnarumdæmis sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Þegar það gerist þá fórum við að undirbúa okkur undir það að bjóða upp á þessa þjónustu. Sá undirbúningur tók okkur tvö ár og núna höfum við verið að keyra þessa leið síðastliðin tvö ár.“
Þórir segir að eftir að Allrahanda hafi byrjað að bjóða upp á akstur milli Flugstöðvarinnar og höfuðborgarinnar hafi verið farið í lagabreytingu sem átti að heimila sveitarfélögum akstur milli lögsagnarumdæma. „Það getur ekki gilt um leiðir sem þegar eru komnar í samkeppni, það er andstætt Evrópureglum,“ segir Þórir og því hafi Allrahanda haldið áfram að bjóða upp á þessa þjónustu. Þórir segir að menn hafi vissulega skipst á skoðunum og sitt sýnist hverjum í þessu máli en hann telur að starfsemi Allrahanda sé fullkomlega lögleg. Þjónustan sem Allrahanda býður upp á er að mestu leyti eins og hjá Kynnisferðum og njóta þeir sömu aðstöðu og allir aðrir. „Þetta er bara samkeppni,“ segir Þórir.
Þórir segir að Allrahanda taki þátt í útboðinu vegna þess að þeim þyki sanngjarnt að greiða eðlilegt gjald fyrir aðstöðusköpun og leigu við Flugstöðina og fyrir þjónustu við viðskiptavini sína. Allrahanda gerir þó ekki ráð fyrir því að vera með einkaleyfi á þjónustunni að hans sögn.
Árásir á samkeppni
Aðspurður um hvernig niðurstöðu Þórir vonaðist eftir í málinu, segist hann vilja sjá SSS láta af árásum á samkeppni sem er til þess gerð að sinna ferðamönnum sem koma til landsins. „Það er gjörsamlega óásættanlegur ásetningur að ætla sér að skattleggja ferðamenn sem koma til Íslands. Þetta er ekkert annað en tilburðir til einokunar og löngu liðin tíð. Það má segja að þetta sé stríðsyfirlýsing frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum við samkeppni og ferðaþjónustu á Íslandi. Það væri óskandi að þetta mál myndi fjara út og menn taki sig saman um að efla ferðaþjónustuna.“
Þórir tekur það fram að Kynnisferðir hafi ávallt sinnt þessari þjónustu vel en hins vegar sé samkeppni alltaf af hinu góða. Þórir vill meina það að Kynnisferðir séu á ólöglegum ríkisstyrk og að áfram hyggist Allrahanda bjóða upp á þessa þjónustu. „Við komum ekki til með að hætta og ef menn ætla sér að bregða fæti fyrir okkur þá verður því svarað með málaferlum.“