Uppstokkun og þolinmæði
„Aðstæður kalla að sjálfsögðu á endurmat á framtíðarsýn og væntingum um allt íslenska bankakerfið, þar á meðal hér hjá okkur í Sparisjóðnum. Þeir mánuðir sem framundan eru kunna að verða mánuðir uppstokkunar í bankakerfinu og þá held ég að Sparisjóðurinn í Keflavík sé engin undantekning,“ sagði Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðsstjóri á aðalfundi Sparisjóðsins í Lava sal Bláa lónsins síðdegis í gær.
Ræða Geirmundar var í stíl við umhverfið á dimmum vetrardegi þar sem þungir hraunveggir blasa við í glæslegum salnum í Bláa lóninu.
Glæsileikinn í rekstri Spkef var til umræðu á aðalfundinum á síðasta ári, bjartsýnin óendanleg og bros á fundarmönnum. Ræða Geirmundar fyrir síðasta rekstrarár var á öðrum nótum. Hann sagði efnahagsástandið væri núna eins og veðrið hefur verið á einum erfiðasta vetri í manna minnum.
„En strax og daginn tekur að lengja fer að birta yfir okkur að nýju og vorið, einn dásamlegasti tími á Íslandi fer í hönd. Ég held að slík lýsing geti einning átt við efnahagsástandið hjá okkur í dag.
Við verðum því að bera gæfu til að halda þolinmæði og þrauka eitthvað lengur en vanalega, og láta ekki bugast þótt myrkrið standi eitthvað lengur en árstíðirnar segja til um,“ sagði Geirmundur.
Þrjúhundruð stofnfjáreigendur mættu á aðalfundinn og samþykktu reikninga, nýja stjórn og fleiri mál með lófaklappi. Tillaga um óbreytta þóknun til stjórnarmanna var samþykkt en hún er 120 þús. kr.
til stjórnarmanna og tvöfalt hærri til formanns. Ein óformleg tillaga kom fram úr hópi fundarmanna; „af hverju er ekki lækkað eins og í Glitni“ en ekki var greitt um hana atkvæði þar sem hún var ekki lögð formlega fram á fundinum.
Viðtal við Geirmund má sjá á VefTV og ræða hans á aðalfundinum verður birt í heild sinni á Sjónvarpi VF á kapalkerfinu í Reykjanesbæ í dag