Unnið á tæplega helmings afköstum í vinnsluhúsi Þorbjarnar
Útgerðarfyrirtækið Þorbjörn í Grindavík hóf vinnslu á nýjan leik á dögunum. Önnur löndunin fór fram mánudagsmorguninn 4. desember, þá landaði Sturla í annað skipti og áður hafði Valdimar landað fyrir norðan og var aflanum keyrt suður til Grindavíkur.
Þegar blaðamann bar að garði þennan mánudagsmorgun var allt í myrkri en upp kom vandamál sem verið var að skoða á meðan viðtal við Jóhann Vigni Gunnarsson, starfsmann Þorbjarnar, fór fram. „Ég fékk símhringingu á laugardagskvöld frá slökkviliði Grindavíkur en þeim varð ekki um sel þegar ljósin í vinnslunni tóku að blikka eins og á dönsku diskóteki. Húsið var auðvitað mannlaust og þeir slógu ljósunum út fyrir okkur. Eitthvað hefur valdið þessu um helgina og það er erfitt að snyrta flök í blikkandi diskóstemmningu. Rafvirkjar eru að skoða þetta og vonandi kemst þetta í lag sem fyrst. Það eru venjulega um 70 starfsmenn hjá okkur en við erum ekki með nema rúmlega 30 starfsmenn eftir að við hófum starfsemi á nýjan leik. Það hefur gengið erfiðlega að fá fleiri því bæði eru margir Pólverjar farnir til Póllands því ekki tókst að útvega þeim húsnæði í tæka tíð og svo búa nokkrir starfsmenn það langt í burtu frá Grindavík að ekki er hægt að koma þeim til vinnu. Vinnslan er með hefðbundnu sniði en bara á helmings afköstum, við höfum tekið við afla úr þremur löndunum og sá fiskur er unninn og settur í salt, öðrum fiski sem er tilbúinn er pakkað og hann fluttur út. Svona þurfum við að hafa þetta til að byrja með. Við erum, ásamt Vísi og Grindavíkurbæ, að vinna í að fá íbúðir í gámum sem yrðu staðsettir í Vogum við hlið húsnæðis sem við eigum þar. Þar er mötuneyti og kaffiaðstaða og getum vonandi komið þessu í gagnið sem fyrst. Við myndum svo skipuleggja flutninga milli Grindavíkur og Voga. Það er nokkuð ljóst að starfsmannakostnaðurinn mun hækka ansi mikið en betri er hálfur skaði en allur,“ sagði Jóhann.