Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Tískuföt á alla aldurshópa
Miðvikudagur 28. nóvember 2018 kl. 11:22

Tískuföt á alla aldurshópa

Íris Harðardóttir rekur ásamt syni sínum, Erlingi Birni Helgasyni, tískuvöruverslunina VIBES á Hafnargötu og hefur gert undanfarin tvö ár.

„Mig langaði að vera með eigin rekstur en ég hef unnið hjá öðrum í mörg ár og verið verslunarstjóri hér og þar en nú langaði mig að prófa að reka tískuverslun sjálf. Þetta er búið að vera gaman en ég hef alltaf verið mikið fyrir tískuföt og man eftir mér þriggja ára með mömmu minni að benda á tískufatnað í gluggum. Þetta er svo stór partur af mér,“ segir Íris sem stóð vaktina ein þennan daginn í búðinni og var að aðstoða viðskiptavini þegar blaðamaður rak inn nefið til að forvitnast. Sýningargluggi VIBES hefur oft vakið athygli vegfarenda fyrir frumlega útstillingu og nú er þar gamalt lögreglumótorhjól sem prýðir gluggann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólin koma fyrst í sýningargluggann

Stíllinn í versluninni er retro-stíll en Íris segist leggja mikið upp úr því að fólki líði vel á meðan það er að versla. „Já, ég vil að fólki finnist gott að koma hingað inn, þess vegna er ég með allskonar skraut hér inni svo að búðin minni einnig á heimili. Mér finnst líka mjög gaman að stilla út í gluggann og bráðum fer ég í jólagluggann. Það er alltaf ákveðin stemmning að fá jólin í gluggana. Einu sinni veitti Reykjanesbær viðurkenningu fyrir skemmtilegasta jólagluggann í miðbænum okkar. Því miður eru þeir hættir því en það skapaði mjög skemmtilega stemmningu hjá okkur sem rekum verslanir hér í bæ og hvatti okkur til að leggja meira í sýningargluggana okkar,“ segir Íris og vonast til að bæjaryfirvöld taki þann skemmtilega sið upp aftur.

Upphaflega átti VIBES eingöngu að bjóða upp á tískuföt fyrir stráka en það breyttist fljótlega þegar Íris fór að fara til útlanda að kaupa inn fatnað fyrir búðina.

„Ég á þrjá stráka og mér fannst vanta föt á stráka, svona kúl street-föt, töff föt. Mig langaði að skapa sjálfri mér atvinnutækifæri. Ég fer öðru hvoru til útlanda að kaupa inn fatnað fyrir búðina til að bjóða upp á annað úrval og betra verð, en það gerist þegar ég kaupi beint af heildsala úti en ekki í gegnum milliliði hér heima. Ég komst ekki hjá því að sjá kvenfatnað í leiðinni og hann var svo flottur að ég fór að kaupa inn einnig handa konum. Það var svo erfitt að horfa á þessi flottu föt og taka þau ekki með heim. Í dag er ég með fyrir alla aldurshópa og á bæði kynin,“ segir Íris.

Vil veita persónulega þjónustu

Íris hefur sem sagt alltaf unnið í tískuverslun og segist ekki vilja vinna við neitt annað, það sé svo gaman. „Ég hef mikla þjónustulund og vil selja kúnnanum það sem klæðir hann ef ég er spurð ráða, sem er yfirleitt. Þegar fólk kemur hingað inn þá er þjónustustigið hátt því ég vil gera vel við alla. Það er prinsipp-mál hjá mér að hjálpa fólki að finna föt sem passa best,“ segir Íris og viðurkennir að dagarnir verði stundum langir þegar maður vinnur hjá sjálfum sér.

„Ég er fjölskyldumanneskja og vildi einnig að yngsta barnið mitt, dóttir mín, gæti komið hingað eftir skóla og lært hérna inni hjá mér. Þannig hefur hún alltaf aðgang að mér og ég get í leiðinni einnig sinnt starfinu mínu vel,“ segir Íris og hlakkar til jólanna og að klæða bæjarbúa í flott jólaföt.